Meiri stuðning í fjölmiðla á landsbyggðinni

Fjölmiðlar á höfuðborgarsvæðinu, svo sem Ríkisútvarpið og Fréttablaðið hafa tekið eindregna afstöðu gegn auknu fjármagni til stuðnings fjölmiðlum á landsbyggðinni. Fréttaflutningur af tillögu meirihluta fjárlaganefndar Alþingis um 100 m.kr.  til reksturs fjölmiðla á landsbyggðinni var frekar málflutningur og farið var frjálslega með staðreyndir. Ítrekað var því haldið fram að meirihluti fjárlaganefndar hefði lagt til að veita 100 m.kr. styrk til sjónvarpsstöðvarinnar N4 á Akureyri, síðast á RÚV þann 3. janúar sl.

Það er alvarlegt mál þegar helstu fjölmiðlar landsins leyfa sér að hafa rangt við, flytja rangar fréttir, augljóslega í þeim tilgangi einum að vinna gegn framgangi málsins. Sérstaklega er ástæða til þess að gagnrýna framgöngu Ríkisútvarpsins, sem kallar sig RÚV um þessar mundir.

Það blasir við að sú ætlan, sem reyndar gekk svo eftir, að verja 100 m.kr. úr ríkissjóði til reksturs fjölmiðla á lands-byggðinni sem framleiða eigið efni fyrir sjónvarpsstöð mætir mikilli andstöðu fjölmiðla á höfuðborgarsvæðinu. Fjármagnið fer út á land og verður mótvægi við fjölmiðlana á höfuðborgarsvæðinu, sem hingað til sitja nær einráðir að öll fé úr ríkissjóði. Ríkisútvarpið fær nærri 5,4 milljarða króna úr ríkissjóði og allur lunginn af 377 m.kr. fjárveitingu til einkarekinna fjölmiðla fer til að styrkja rekstur fjölmiðla á höfuðborgarsvæðinu.  Það segja meira en mörg orð að sumir þeirra, skulum við segja, fengu nánast flogakast yfir því að fyrirsjáanlega fengju þeir ekki neitt af 100 m.kr. viðbótar-fjárveitingu.

Það hallar á landsbyggðina

Það hallar mjög á landsbyggina í fréttaflutningi höfuðborgarfjölmiðlanna og ýmis framfaramál á landsbyggðinni eru vegin og metin út frá sjónarmiðum og mælikvörðum sem eru á einn veg á landsbyggðinni en á annan veg á höfuðborgarsvæðinu. Þrálátur og óvandaður fréttaflutningur Ríkisútvarpsins gegn vegagerð um Teigskóg og gegn Hvalárvirkjun hefur haft mikil áhrif gegn þessum nauðsynlegu framfaramálum og hefur skaðað Vestfirðinga. Ríkisútvarpið dró úr umsvifum sínum á landsbyggðinni og flutti að fullu frá Vestfjörðum. Fréttum af svæðinu hefur verið stjórnað frá Faxaflóa síðustu árin.

Það er full ástæða til þess að efla fréttaflutning á landsbyggðinni og af fólki sem er utan tiltölulega fámenns og einsleits hóps sem er allur samankominn á litlu svæði. Fréttaflutngurinn á ekki bara að vera um fréttir af landsbyggðinni heldur einnig af öllum öðrum fréttum. Það þarf stærri hóp sem fjallar um málin og út frá fjölbreyttari sjónarhól en nú er.

Alþingi hefði mátt ganga enn lengra í því að dreifa því fé sem fer til fjölmiðla jafnar milli landshluta. Það hefði mátt taka allar þær 290 m.kr. sem RÚV fékk til viðbótar fjárveitingu síðasta árs og eyrnamerkja þær fjölmiðlum á landsbyggðinni. Það væri engin neyð á ríkisstofnuninni þótt hún verði að láta sér nægja 5.085 m.kr. í ár rétt eins og í fyrra.

Menningar- og viðskiptaráðherra fær það verkefni að útfæra reglur um úthlutun 100 m.kr. viðbótarfjármagnsins. Fyrir liggur að auglýst verður eftir umsóknum og að stjórnsýslulög gilda bæði um reglurnar sem settar verða og um úthlutunina sjálfa þegar að henni kemur. Tilmæli Alþingis til ráðherrans eru frekar almenn. Féð á að fara til reksturs fjölmiðla á landsbyggðinni sem framleiða eigið efni fyrir sjónvarpsstöð. Hér þarf ráðherrann fyrst að ákvarða hvers konar efni á styrkurinn að fara í. Á það að vera fréttaefni eða eitthvert annað efni, svo sem kynningarefni. Hér verður sett fram sú skoðun að stjórnvöld eigi að einbeita sér að fréttaefni og mynda mótvægi við fréttaflutning höfuðborgarfjölmiðlanna.

Rangfærslur RÚV

Á þriðjudaginn var frétt í Ríkisútvarpinu um þessa viðbótarfjárveitingu. Þar var fullyrt eftirfarandi: „Um miðjan desember var greint frá því að fjárlaganefnd hefði samþykkt að N4 yrði úthlutað hundrað milljónum króna fyrir að framleiða eigin efni fyrir sjónvarp á landsbyggðinni.“

Þetta eru ósannindi. Fjárlaganefnd samþykkti ekki að úthluta hundrað milljónum króna til N4. Fjárlaganefnd lagði það ekki einu sinni til.   Það er einfalt að fletta upp þingskjölum og athuga hvað var samþykkt og hvar var lagt til. Tillaga meirihluta fjárlaganefndar var sú að hækka lið 16-303 Stuðningur við einkarekna fjölmiðla undir 19-10 Fjölmiðlun um 100 m.kr. Fjárlagaliðurinn er undir Menningar- og viðskiptaráðuneyti. Þessi tillaga var samþykkt. Fjölmiðlafyrirtækið N4 er ekki viðtakandi fjárveitingarinnar og er hvergi nefnt í afgreiðslunni. Það er ráðuneytið sem fær fjárveitinguna og mun úthluta henni samkvæmt reglum þar um og stjórnsýslulögum. Það veit enginn nú hverjir munu sækja um og hverjir munu fá úthlutað.

Meirihluti fjárlaganefndar lagði ekki til að N4 fengi fjármagn og Alþingi samþykkti ekki slíkt heldur. Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir, en samt fullyrðir RÚV þann 3. janúar 2023 að fjárlaganefnd hafi samþykkt að úthluta N4 hundrað milljónum króna. Þessar rangfærslur komu fram í fréttum RÚV í desember þegar málið var til umfjöllunar á Alþingi en hér eru þær endurteknar nokkrum vikum síðar. Hvað veldur því að ríkisfjölmiðillinn er vísvitandi að dreifa rangfærslum um málið?

Þá segir í umræddri frétt RÚV frá 3. janúar að fjárlaganefnd hafi dregið í land síðar sama daginn. Þetta er heldur ekki rétt. Það sem meirihluti fjárlaganefndar setti í framhaldsnefndarálit var eftirfarandi: „Í ljósi umræðu í fjölmiðlum beinir meiri hlutinn því til ráðherra að endurskoða þær reglur sem gilda um rekstrarstuðning við einkarekna fjölmiðla á landsbyggðinni þannig að aukið tillit verði tekið til þeirra sem framleiða efni.“

Tillagan tók engum breytingum. Samþykkt var að verja 100 m.kr. til einkarekinna fjölmiðla sem framleiða eigin efni. Þarna er ekkert dregið í land. Það á að gera það sama og lagt var til í upphafi. Hins vegar er áréttað að ráðherrann sem úthluta á fénu endurskoði reglurnar um úthlutun fjár til einkarekinna fjölmiðla þannig að 100 m.kr. renni til þess sem Alþingi ætlast til.

Það er hins vegar kominn tími til þess að RÚV dragi í land í þessu máli og stofnunin mætti biðjast afsökunar á rangfærslum sínum.

 

-k

DEILA