Leiðbeiningar um akstur í snjó

Halldór Holt setti að gefnu tilefni saman á dögunum ábendingar eða leiðbeiningar frá bílstjórum mokstursbíla til ökumanna á litlum bílum í akstri í snjó. Eins og fram kom í fréttum um jólin urðu mikil vandræði við snjómokstur af föstum bílum og óvönum bílstjórum. Halldór sem er þaulreyndur bílstjóri hefur verið atvinnubílstjóri frá 1984 og keyrt rútur, trailera, mokstursbíla og gert út leigubíl og er með samanlagðan km. fjölda sem atvinnu bílstjóri ca. 3,5 miljónir ekinna km. Hann var lengi búsettur á Patreksfirði og er skólaður í vetrarakstri við vestfirskar aðstæður, á fjöllum sem láglendi. Ábendingarnar kallar Halldór Boðorðin 10 og eru þau unnin upp úr norskum texta.

Boðorðin 10

 1. Mokstursbílar eru úti á vegunum til að gera veginn öruggan fyrir þig, sýndu virðingu.
 2. Haltu þig í hæfilegri fjarlægð frá mokstursbílnum, eitthvað getur gerst fyrir framan hann sem
  þú ekki sérð.
 3. Verðir þú að keyra framhjá, farðu varlega! Snjór og hálka á miklum hraða geta skapað
  hættulegar aðstæður.
 4. Þar sem mokstursbílar keyra í röðum til að ná sem bestum árangri við mokstur EKKI keyra
  framhjá/fram úr eða leggja þig á milli þeirra, það kemur í veg fyrir árangur þeirra og getur
  skapað stórhættulegar aðstæður.
 5. Í hringtorgum þarf mokstursbíllinn oftar en ekki að fara fleiri en einn hring. Farðu sérstaklega
  varlega og bíddu þar til hann hefur lokið öllum hringjunum.
 6. Í stoppistöðvum strætisvagna reynir mokstursbíllinn að halda óbreyttum hraða til að viðhalda
  snjóflæðinu frá plógnum. Ef þú ferð fram úr þar, þá er hætta á að þú lendir í blinda blettinum hjá
  honum þegar hann sveigir aftur út á akbrautina.
 7. Þegar miðja vegar er mokuð þarf mokstursbíllinn að skekka plóginn yfir á næstu akrein. Ef þú
  færð mokstursbíl á móti þér, dragðu þá úr hraða og leggðu þið eins langt til hægri og þú getur.
 8. Við mokstur á fjölakreina vegi er mokað frá vinstri til hægri og þá gæti verið snjór á hægri
  helmingi akreinar, ef þú ekur í snjóröndinni dreifir þú snjónum og skapar hættu fyrir þig og meiri
  vinnu fyrir mokstursmanninn.
 9. Mokstursbílar keyra yfirleitt á ca. 40 km hraða. Vertu þolinmóður.
 10. Mokstursbílstjórar eru ánægðir þegar þú sýnir aðgát og vinkar vinalega og ekki hika við að
  senda ÞUMALINN UPP.
Halldór Holt.

DEILA