Ísófit málið: viðræður í gangi við Þrúðheima ehf

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri segir að Ísafjarðarbær sé í samskiptum við lögmann Þrúðheima vegna úrskurðar ráðuneytisins í kærumáli Þrúðheima. Segist hún vonast eftir því að sátt náist milli aðila, en komi til greiðslu bóta þarf bæjarstjórn að koma að málinu. Farælast sé fyrir báða aðila að ná sáttum.

Arna Lára var innt eftir því hvers vegna hefur dregist svo lengi að senda Innviðaráðubeytinu rökstuðning Ísafjarðarbæjar fyrir endurupptöku úrskurðar, en fimm mánuðum eftir að krafist var endurupptöku málsins hafði ráðuneytið ekki fengið rökstuðning bæjarins.

„Sveitarfélagið hefur jafnframt verið í samskiptum við ráðuneytið og aðra opinbera aðila vegna umrædds kærumáls og endurupptökubeiðnar, þar sem kæra og umsagnarbeiðni bárust ekki frá ráðuneytinu. Er það mál því í ferli og er ekki hægt að upplýsa frekar um málavöxtu að svo stöddu.“

Aðspurð að því hvort bærinn hafi dregið til baka kröfu sína um endurupptöku málsins sagði bæjarstjóri að formlega hefði það ekki verið gert.

Innviðaráðuneytið úrskurðaði 23. júní 2022 sem ólögmæta styrkveitingu Ísafjarðarbæjar til Ísofit ehf til reksturs líkamsræktarstöðvar en samið var um 400 þúsund króna mánaðarlegan styrk til þriggja ára. Þar var fyrirtækið Þrúðheimar ehf sem kærði samninginn til ráðuneytisins.

Ísafjarðarbær krafðist þess 27.7. 2022 að málið yrði tekið upp að nýju til úrskurðar og bar því við að sveitarfélagið hefði ekki fengið tilkynningu um kæruna og hefði því ekki haldið upp vörnum.

Þann 29.12. 2022 segir ráðuneytið vera í sömu stöðu og áður. Beiðni um endurupptöku hefur borist ráðuneytinu og beðið er eftir rökstuðningi sveitarfélagsins. Á meðan svo er telur ráðuneytið ekki rétt að fjalla efnislega um málið.

DEILA