Isavia vill selja flugstöðina á Þingeyri

Isavia hefur skrifað Ísafjarðarbæ og greint frá því að fyrirtækið hafi heimild í fjárlögum 2023 til þess að ráðstafa flugstöðinni á Þingeyrarflugvelli og stefni að því að fá Ríkiskaup til að aðstoða við sölu á eigninni.

Er Ísafjarðarbæ boðin stöðin til kaups.

Í bréfinu er rakið að farið var í töluverðar framkvæmdir á Þingeyrarflugvelli á árunum 2006 og 2007. Í þeim fólst
m.a. stækkun flugbrautar með yfirlagi, stækkun öryggissvæða og lagningu nýs vegar.

Árið 2013 komu fram frostskemmdir í flugbrautinni. Ástæðan var talin vera að jöfnunarlagið  hafi brotnað niður við iklu völtun á seinna ári framkvæmdanna, þannig að það varð of rakadrægt og lyftist í frosti. Í ljósi þessa ástands var flug-brautin tilkynnt opin að sumarlagi fyrir áætlunarflug, en lokuð á veturna sökum áhrifa af frosti annars vegar og þíðu hins vegar.

Síðar komu fram takmarkanir sem leiddi af breyttum reglum Flugöryggisstofnunar Evrópu (EASA), sem þýddu að afkastageta F 50 leyfði ekki notkun flugbrautarinnar, en hún var talin nothæf fyrir Dash Q200, sem nú er notuð fyrir flug til Ísafjarðar.

Aðstæður eru þannig vestra að þegar ófært er til Ísafjarðar þá er ekki í öllum tilvikum fært á Þingeyrarflugvöll vegna legu flugbrautarinnar, vegna vindstrengja sem koma þvert á flugbrautarendana úr dölum sem liggja við hvorn endann. Í bréfinu segir að erfitt sé að meta hversu oft hefði verið hægt að nota Þingeyrarflugvöll í stað Ísafjarðarflugvallar þar sem veðurfarslegar aðstæður eru ekki kannaðar nema þegar til stendur að lenda á vellinum. Skiptir þar skyggni, vindhæð og vindátt mestu máli.

Ef rýnt er í tölur um lendingar sést að Þingeyrarflugvöllur var á árunum 2010–2015 verið notaður í um 9–15%
þeirra tilvika sem ekki hefur verið hægt að nota Ísafjarðarflugvöll. Það væru um 9–15 lendingar á ári. Bréfinu lýkur með því að segja að í „ljósi samgöngubóta í vegakerfi á Vestfjörðum þá væri líklega skynsamlegra að skoða
Bíldudalsflugvöll sem varaflugvöll fyrir Ísafjörð.“

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar telur sig ekki hafa not fyrir eignina.

Bæjarráð telur ekki tímabært að ræða sölu flugstöðvarinnar á Þingeyri, fyrr en fyrir liggur skýr framtíðarsýn um notkun flugvallarins.

Bæjarráðið gerir jafnframt athugasemdir við hugmyndir um að skynsamlegt sé að skoða Bíldudalsflugvöll sem vara-flugvöll fyrir Ísafjörð. Segir í bókun ráðsins að í bestu aðstæðum sé tæplega tveggja tíma akstur milli Bíldudals og Ísafjarðar, og því óraunhæft að horfa til Bíldudals sem varaflugvallar fyrir Ísafjarðarflugvöll.

Bæjarráð lýsir jafnframt yfir áhyggjum af flugsamgöngum til svæðisins, enda hefur þjónusta minnkað síðustu ár, m.a. með fækkun flugferða.

DEILA