Ísafjörður: kostnaður við stúdentagarða hækkar um 100 m.kr.

Halldór Halldórsson, stjórnarformaður Stúdentagarðanna.

Stjórn  Stúdentagarða Háskólaseturs Vestfjarða hses fékk verkfræðistofu til þess að gera kostnaðaráætlun um byggingu 40 íbúða í tveimur húsum við Fjarðarstræti á Ísafirði. Reyndist áætlunin vera um 100 m.kr. hærri en kostnaðarrammi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar gerði ráð fyrir og er heildarbyggingarkostnaður um milljarður króna.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur samþykkt að hækka stofnvirði byggingarinnar og jafnframt að hækka stofn-framlag sitt með fyrirvara um samþykki Ísafjarðarbæjar , en óskað er eftir að Ísafjarðarbær komi til móts við hses vegna óhjákvæmilegrar hækkunar. Að sögn Halldórs Halldórssonar, stjórnarformanns er stofnframlag HMS 18% af kostnaði og auk þess 4% viðbótarframlag og sérstakt byggðaframlag. Stofnframlag Ísafjarðarbæjar er 12% og má gera ráð fyrir að hlutur bæjarins í kostaðarhækkuninni sé um 12 m.kr. Það sem út af stendur af kostnaðarhækkuninni þegar aukið stofnframlag er dregið frá kemur fram í húsaleigu íbúðanna fjörtíu.

Halldór segir að steyptir verði sökklar við fyrsta tækifæri og að stefna sé að byrja að reisa húsin í mars næstkomandi. Um er að ræða einingahús frá Eistlandi. Fyrirtækið Seve framleiðir einingarnar. Raflagnir og pípulagnir verða unnar á staðnum. Markmiðið er að stúdentagarðarnir verði tilbúnir við upphaf skólaárs næsta haust. Að sögn Halldórs lítur nokkuð vel út með að það takist.

Bæjaráð ræddi málið á fundi sínum í gær og frestaði afgreiðslu þess til næsta fundar.

DEILA