Ísafjarðarbær: vilja valkost 3a í stækkun á hjúkrunarheimilinu Eyri

Mynd úr greinargerð Framkvæmdasýslu ríkisins.

Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að samþykkja valkost 3a vegna stækkunar á hjúkrunar-heimilinu Eyri um10 rými en leggur áherslu á að púttvöllur verði nýtanlegur að hluta á meðan á framkvæmdum stendur og uppbyggingu hans verði lokið samhliða framkvæmdum við nýja álmu.

Þetta er niðurstaða nefndarinnar eftir að hafa farið yfir þá tvo valkosti sem einkum komu til greina. Hinn kosturinn 2a var að byggja á lóð við hringtorgið. Kostnaður við tengigang, hljóðkröfur og færslu lagna er áætlaður 105 m.kr. við valkost 3a en 74 m.kr. við hinn kostinn í úttekt Framkvæmdasýslu ríkisins.

Framkvæmdasýsla ríkisins hefur í samstarfi við Ísafjarðarbæ unnið frumathugun fyrir stækkun húsnæðisins. Miðað er við 650 m² stækkun á einni hæð sem tengist núverandi húsnæði en þó ekki í gegnum aðra álmu. Áhersla er á stuttar vegalengdir og gott flæði og aðgengi. Einnig að tekið sé mið af helstu sólaráttum, vindáttum og útsýni.

Í minnisblaði Verkís um valkostina segir að báðar tillögurnar samræmist gildandi aðalskipulagi en kalli á breytingu á gildandi deiliskipulagi. Tillaga 2a er þó ekki í samræmi við áherslur deiliskipulagsins um að skyggja ekki á Gamla sjúkrahúsið.
Tillaga 3a muni skerða púttvöllinn en skoða mætti breytt fyrirkomulag hans. Tillaga 3a skerðir að litlu leyti útisvæði á lóð hjúkrunarheimilisins og eykur óverulega á skuggamyndun. Tillaga 2a mun skerða útisvæði á lóð hjúkrunar-heimilisins og auka á skuggamyndun þar.

DEILA