Ísafjarðarbær: velferðarnefnd vill hækka sérstakan húsnæðisstuðning um allt að 30.000 kr. á mánuði

Ísafjörður. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Velferðarnefnd Ísafjarðarbæjar leggur til að húsnæðisbætur ríkisins og sérstakur húsnæðisstuðningur sveitarfélagsins geti samtals orðið 90.000 kr. á mánuði en hámarkið í gildandi reglum er 60.000 kr.

Þetta verði gert með því að hækka hámarks – og lágmarksviðmið í tekjumörkum umsækjanda og segir nefndin að með þessu verði stuðningur veittur þeim sem mest þurfa á að halda. Ekki kemur fram í bókun velferðarnefndar hvaða tekjumörk á að taka upp. Í gildandi reglum eru tekjumörkin breytileg eftir fjölskyldustærð og er miðað við einn upp í fjóra í heimili.

Fyrir einn í heimili er óskertur sérstakur húsnæðisstuðningur upp að 258.333 kr. á mánuði og hann fellur niður við 322.917 kr. Fyrir fjóra í heimili eru neðri mörkin 400.000 kr. og efri mörkin 500.000 kr. á mánuði.

Reglur Ísafjarðarbæjar eru frá 2017 og þar sem húsnæðisbætur ríkisins hafa hækkað frá þeim tíma hefur það leitt til þess að þriggja og fjögurra manna fjölskyldur fá meira en samanlagða hámarkið 60.000 kr. í húsnæðisstuðning og fá hafa því kki rétt til sérstaks húsnæðisstuðnings frá bænum til viðbótar. Með hækkun hámarksins upp í 90.000 kr. á mánuði mun það breytast.

Húsnæðisbætur ríkisins eru í dag 62.916 kr./mán fyrir þriggja manna fjölskyldu og 68.159 kr./mán fyrir fjögurra manna fjölskyldu.

Fyrir einstakling eru mánaðarlegar húsnæðisbætur 40.633 kr. og fyrir tvo í heimili eru þær 53.741 kr.

Velferðarnefndin vill að að húsnæðisbætur og sérstakur húsnæðisstuðningur geti aldrei farið yfir 75% af húsnæðis-kostnaði. Ekki verði greiddur sérstakur húsnæðisstuðningur þegar húsnæðiskostnaður að frádregnum húsnæðisbótum sé kr. 55.000.- eða lægri.

Í fjárhagsáætlun 2023 fyrir Ísafjarðarbæ eru 4.664.000 kr. ætlaðar fyrir sérstakan húsnæðisstuðning og hækkar fjárhæðin um 6% frá síðasta ári þegar hún var 4.400.000 kr. Ekki liggur fyrir hvort tillögurnar rúmast innan ramma fjárhagsáætlunarinnar.

DEILA