Ísafjarðarbær : stjórnsýslukæra vegna byggðakvóta

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

Sigfús Önundarson og Guðmundur Gísli Geirdal útgerðarmenn hafa kært Ísafjarðarbæ til Innviðaráðuneytisins vegna ákvörðunar um reglur til þess að úthluta byggðakvóta. Segja þeir í kærunni að þeir telji að stjórnsýslulög hafa verið brotin og verklags-reglur ekki virtar varðandi afgreiðslu sérreglna byggðakvóta hjá Ísafjarðarbæ og að umsögn þeirra þar að lútandi hafi ekki verið tekin til efnislegrar umfjöllunar hjá Ísafjarðarbæ.

Rekja þeir í erindi sínu að bæjarráð hafi auglýst eftir umsögnum og að taka hafi átt þær til athugunar í bæjarráði að umsagnarfresti loknum. Það hafi ekki verið gert heldur hafi málið verið tekið beint til afgreiðslu í bæjarstjórn. Þar hafi engin fylgigögn varðandi þær 7 umsagnir sem bárust verið lögð fram og því ekki hægt að álykta að bæjarstjórn hafi tekið upplýsta ákvörðun heldur hafi einhliða tillaga bæjarstjóra verið samþykkt.

Þá gera þeir Sigfús og Guðmundur athugasemd við eignatengsl Ísafjarðarbæjar í gegnum eignarhaldsfélagið Hvetjanda í ýmsum fyrirtækjum sem fá byggðakvóta samkvæmt samþykktum úthlutunarreglum um byggðakvóta. Nefna þeir Icelandic Sea Angling hf, Fiskvinnslan Íslandssaga hf og Norðureyri ehf í því samhengi og að Arna Lára Jónsdóttir bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar er stjórnarmaður í Hvetjanda. „Því má ætla að bæjarstjóri sé vanhæfur vegna stjórnarsetu í Hvetjanda og jafnvel bæjarstjórn öll.“ segir í lok erindisins til ráðuneytisins.

Innanríkisráðuneytið hefur óskað eftir gögnum og umsögn Ísafjarðarbæjar eigi síðar en 17. febrúar 2023.

DEILA