Ísafjarðarbær: snjómokstursreglur endurskoðaðar

Teikning af snjómokstursáætlun í Skutulsfirði.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd Ísafjarðarbæjar hefur til endurskoðunar snjómokstursreglur og tók fyrir í síðustu viku mokstur í Skutulsfirði og á Suðureyri. Snjómokstri er sinnt af verktökum eingöngu eftir að starfsmenn áhaldahúss hættu að sinna mokstri.

Frá því að verklagsreglurnar voru síðast uppfærðar hafa bæst við tvær götur sem þarf að þjónusta, Æðartangi og Tungubraut 2-16 í Skutulsfirði. Nefndin hefur til athugunar forgangsflokkun í snjómokstri og hvort breytinga sé þörf þar.

Hverfisráð Holta-, Tungu- og Seljalandshverfis í Skutulsfirði segir í umsögn sinni að heilt yfir hafi það ekki stórkostl-egar athugasemdir þar sem forgangs-mokstur er að nánast öllum botngötum í hverfinu en koma þó með nokkrar ábendingar. Ráðið vill að öll Tungubrautin inn að Fífutungu og Hrauntungu verði í forgangi 1. Ef það verði ekki samþykkt þá alla vega í forgangi 2. Sama á við Skógarbraut, annars vegar Skógarbraut að Múlalandi og hins vegar Skógarbraut að Bræðratungu. Með þessum breytingum væri búið að tryggja forgang 1 eða 2 að öllum botngötum í hverfinu.

Hverfisráð Súgandafjarðar segir í sinni umsögn að í heildina væru íbúar sáttir við moksturinn hjá verktakanum sem sér um hann. Göturnar væru vel skafaðar og fólk almennt ánægt með vinnubrögðin. Flestar ábendingarnar sem hverfisráðið fengi frá íbúunum um úrbætur sneru að Túngötu. Þar væri snjóþungt og erfitt fyrir fólk að komast þaðan bæði gangandi sem og keyrandi og enginn annar staður fyrir fólk að leggja bílunum sínum utan þess svæðis. Óskað er eftir því að snjóhaugnum sé annaðhvort keyrt í burtu úr götunni, og væri sá kostur bestur, eða að farið væri með hann mun lengra út að fótboltavellinum.

Þá er óskað eftir því að Hjallavegur verði settur í forgang 1 og að Brekkustígur verði inn á snjómokstursáætluninni. Eins vanti Einnig vantar inn á mokstursskipulagið Freyjugötu frá höfninni og að Skipagötu.

Starfsmanni nefndarinnar var falið að uppfæra reglur í samræmi við framlagt minnisblað og með tilliti til innsendra umsagna.

DEILA