Ísafjarðarbær: samþykkt um almenningssamgöngur ekki upplýstar

Frá Ísafirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum í vikunni tillögur sem fram koma í minnisblaði Eyþórs Guðmundssonar innkaupastjóra um komandi útboð á almenningssamgöngum í Ísafjarðarbæ.

Hverjar þær eru fæst ekki uppgefið og er því borið við af hálfu Ísafjarðarbæjar að um sé að ræða upplýsingar sem leynt skulu fara sbr. 5. tl. 10. gr. upplýsingalaga.

Þar segir að fyrirhugaðar ráðstafanir á vegum hins opinbera yrðu þýðingarlaus eða skiluðu ekki tilætluðum árangri væru þau á almannavitorði og því sé heimilt að takmarka aðgang almennings að upplýsingunum.

Í umsögn Hverfisráðs Önundafjarðar um efni minnisblaðsins segir að ferðir strætó til Flateyrar dugi ekki til í núverandi mynd. Óskar ráðið eftir því að ferðir kl 13 frá Flateyri til Ísafjarðar séu alla virka daga til að efla möguleika barna og ungmenna á íþróttaiðkun og tómstundar.

Hverfisráð Súgandafjarðar, Fjarðar og Hnífsdals skiluðu ekki inn umsögn.

Í umsögn skóla- og tómstundasviðs er talin ástæða til að skoða að fækka stoppistöðvum skólabílsins t.d. við Jónsgarð og Krókinn/Fjarðarstræti sem gæti dregið úr því að nemendur sem geta gengið heim úr skólanum noti skólabílinn.

Grunnskóli Ísafjarðar segir í sinni umsögn að óskað sé eftir því að skólaakstur geti farið kl. 13.55 og svo annar kl.14.35 frá skóla til Hnífsdals og Holtahverfi. Er sáttur við leiðarkerfið. Þá segir að nemendum hafi fjölgað undanfarin ár og þurfi að taka mið af því. 200 nemendur þurfa skólaakstur kl.13.55. „Við förum fram á að allir nemendur hafi sæti og sætisbelti. Okkur finnst vanta öruggari biðstöð þar sem í dag verður skólabíllinn að stoppa á Norðurvegi sjálfum þar sem er mikil umferð er á morgnana og hætta getur skapast fyrir nemendur.“

Verktakinn segir í sinni umsögn að tímatöflur þurfi að uppfæra miðað breyttan hámarkshraða innanbæjar og að þær séu knappar milli byggðakjarna. Hann gerir athugasemd við moksturstíma Vegagerðarinnar og segir hann ekki ganga upp gagnvart almenningssamgöngunum. Suðureyrarferðin kl: 06:30 er of snemma og mætti vera klst síðar.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd leggur til við bæjarráð að leggja fram formlega ósk til Vegagerðarinnar um breytingu vetrarþjónustu milli byggðakjarna sveitarfélagsins vegna samþættingar á tímaáætlunum snjómoksturs og almennings-samganga.

Nefndin vísaði málinu til frekari vinnslu í íþrótta- og tómstundanefnd og fræðslunefnd vegna reksturs frístundarútu og skólaksturs.

DEILA