Ísafjarðarbær: reglur um byggðakvóta samþykktar

Flateyrarhöfn.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á fimmtudaginn sérreglur um úthlutun byggðakvóta fyrir yfirstandandi fiskveiðiár 2022/23. Kallað var eftir sjónarmiðum íbúa og hagsmunaaðila varðandi tillögur um sérreglur byggðakvóta og bárust 7 umsagnir.

Í samþykkt bæjarstjórnar segir að undanfarin ár hafi myndast þokkaleg sátt um sérreglur Ísafjarðarbæjar og byggir eftirfarandi samþykkt á þeim reglum að því undaskildu að fallið er frá heimild til að landa innan sveitarfélags og gerð er krafa um að landað sé innan byggðarlags.

Útgerðir þurfa að hafa lögheimili í sveitarfélaginu og frístundabátar fá byggðakvóta. Úthlutun byggðakvóta einstakra byggðalaga innan sveitarfélagsins er þannig að fyrst fá frístundabátar 1 tonn hver, 40% af því sem eftir er skiptist jafnt milli annarra báta sem koma til greina, þó þannig að bátur fær ekki meira en hann landaði á síðasta fiskveiðiári, afganginum skal skipt hlutfallslega, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið, sem landað var innan sveitarfélagsins á tímabilinu 1. september 2021 til 31. ágúst 2022.

skylt er að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga, Ísafjarðarbær getur þó heimilað að aflinn sé unnin innan sveitarfélags með áritun á umsókn viðkomandi um byggðakvóta.

Í Ísafjarðarbæ fá 5 byggðakjarnar úthlutun samtals 1.110 þorskígildistonn og eykst kvótinn um 14 tonn frá síðasta fiskveiðiári. Til Ísafjarðar renna 195 tonn og eykst byggðakvótinn þar um 55 tonn. Á Suðureyri er byggðakvótinn óbreyttur, en hann minnkar um 15 tonn í Hnífsdal, eins og á Flateyri og minnkar um 6 tonn á Þingeyri. Mestur verður byggðakvótinn á Flateyri 285 tonn, þá 275 tonn á Þingeyri, 195 tonn á Ísafirði, 192 tonn á Suðureyri og 163 tonn í Hnífsdal.

DEILA