Ísafjarðarbær: 73 m.kr. styrkir frá Fiskeldissjóði

Súgandafjörður séð til suðausturs: Frá vinstri Suðureyri, Spillir (fjallið), Staðardalur, fyrir miðju fremst bylið Bær siðan eyðijarðirnir Ytri-Vatnadalur og Fremri-Vatnadalur. Vatnadalsvatn. Í hægri kant kirkjustaðurinn Staður og eyðijörðin Staðarhús þar framan við. Ísafjarðarbær áður Suðureyrarhreppur. / Sugandafjordur Mynd: Mats Wibe Lund.

Fiskeldissjóður hefur veitt 73 m.kr. í styrki til innviðaframkvæmda í Ísafjarðarbæ á árunum 2021 og 2022. Annars vegar voru veittir 57 m.kr. styrkir í vatnsveituframkvæmdir í Súgandafirði. Um er að ræða endurnýjun vatnslagna frá miðlunar-tanki á Suðureyri út fyrir Spilli og upp Sunddal í Staðardal. Fyrri áfangi kláraðist í sumar og var styrkur vegna hans að upphæð 24.779.628 kr. Seinni áfangi er í beinu framhaldi af fyrri áfanga og er styrkupphæð fyrir hann 32.400.000 kr.
Helmingur var greiddur út við undirritun í júlí 2022, að hluta til er verkið hafið með efniskaupum. Áætluð verklok eru síðsumars 2023.

Hitt verkefnið sem Fiskeldissjóður styrkti er niðurrif skúra við Fjarðarstræti, vegna nemendagarða Háskólaseturs Vestfjarða og var veittur 16 m.kr. vegna þess. Því verkefni er lokið.

Fyrir árið 2023 má gera ráð fyrir umtalsverðum styrkjum úr Fiskeldissjóð, vegna innviðauppbygginga í sveitafélögum sem koma að fiskeldi. Á árinu 2022 voru veittir styrkir að upphæð 185 m.kr. og er gert ráð fyrir umtalsvert hærri fjárhæð á árinu 2023.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur tekið til umræðu athugun á vænlegum verkefnum sem það sér fyrir að mögulegt sé að framkvæma, með hliðsjón af framkvæmdaáætlun og neðangreindum punktum.
Styrkari samfélagsgerð (menntun, menning, íbúaþróun).
Uppbyggingu innviða (atvinnulíf, þjónusta).
Loftslagsmarkmiðum og umhverfisvernd (fráveita, orkuskipti, vatnsveita).
Tengingu við sjókvíaeldi (hafnir, aðstaða í landi).
Nýsköpun hverskyns, tengd ofangreindum þáttum.

DEILA