Íbúar í Bolungavík 997

Tjaldsvæðið í Bolungavík. Mynd: Finnbogi Bjarnason.

Íbúum með lögheimili í Bolungavík fjölgaði í desember um 8 og voru þeir 997 þann 1. janúar 2023. Takmark bæjaryfirvalda um að ná 1.000 íbúa marki er því innan seilingar og gæti náðst nú í janúar. Stjórnvöld hafa haft þá stefnu að stuðla að sameiningu sveitarfélaga þar sem þau eru fámennari en 1.000.

Þá fjölgaði um 7 íbúa í Vesturbyggð og eru 1.181 með lögheimili þar. Í Kaldrananeshreppi fjölgaði um 3 íbúa sem gerir 2,7% fjölgun. Var það næstmesta fjölgun í sveitarfélagi á landinu, en mest fjölgaði í Skorradalshreppi. Hins vegar fækkaði um 12 í Ísafjarðarbæ og eru 3.860 íbúar í sveitarfélaginu. Íbúum á Vestfjörðum fjölgaði um 2 í desember og voru þeir á nýársdag 7.372.

Á landinu öllu fjölgaði um 664 í desember eða um 0,2% og 387.835 með lögheimili á landinu 1.1. 2023. Mest var fjölgunin í Reykjavík en þar bættust 346 við íbúatöluna og á höfuðborgarsvæðinu öllu fjölgaði um 469 manns.

DEILA