Hörður: handboltahelgi framundan

Sannkölluð handboltahelgi er framundan þessa helgina á Torfnesi á Ísafirði. Fjórði flokkur Harðar karla leikur tvo leiki. Í dag, föstudag kemur lið Gróttu frá Seltjarnarnesi í heimsókn og hefst leikurinn kl 18:30. Á sunnudaginn er annar leikur hjá sama flokki og þá verða andstæðingarnir lið Víkings úr Reykjavík. Sá leikur hefst kl 14:30.

Á laugardaginn fær meistaraflokkur Harðar Vestmannaeyinga í heimsókn í Olísdeildinni og hefst leikurinn kl 15:00. fer Olísdeildin þar með aftur af stað eftir hlé vegna heimsmeistaramótsins sem lýkur á sunnudaginn.

Eyjamenn eru með harðsnúið lið og eru í 5. sæti deildarinnar eftir 12 leiki með 14 stig. Hörður situr í neðsta sæti deildarinnar og bíður eftir sínum fyrsta sigri í deildinni. Hann gæti komið í þessum leik. Hörður teflir fram nýjum leikmanni frá Bidasoa á Spáni, Leo Renaud-David, sem gekk til liðs við félagið eftir áramótin og mun hann styrkja hópinn.

DEILA