Háskólasetur Vestfjarða sækir fram erlendis

Háskólasetur Vestfjarða hefur blásið til sóknar erlendis þaðan sem flestir nemendur setursins koma. Í blaðinu Daily Telegrapf í Bretlandi birtist þann 6. janúar kynning á áhugaverðum námsleiðum.

Ingibjörg Rósa Björnsdóttir kynningar- og vefstjóri segir að ástæðan fyrir þessu sé m.a. sú að Háskólasetrið sjái fram á að geta hæglega tekið við fleiri nemendum með tilkomu nýrra stúdentaíbúða. „Auk þess höfðar uppbyggingin á Vestfjörðum öllum æ meir til alþjóðlegs hóps, en ekki má gleyma að nokkur fjöldi fyrrverandi og núverandi nemenda Háskólasetursins er að taka virkan þátt í henni og gefur henni aukinn drifkraft. Þau hafa verið iðin við nýsköpun og atvinnuuppbyggingu og komið með ferska vinda inn í samfélagið.“

Hún segir Vestfirði orðna enn meira aðlaðandi, „bæði sem staður þar sem hægt er að leggja stund á nám en einnig með möguleika að setjast hér að og starfa við e-ð sem tengist náminu eða þar sem áhugasviðið liggur. Þá hugnast barnafólki það vel að setjast að á Ísafirði í lengri eða skemmri tíma meðan annað eða bæði foreldrin stunda háskóla-nám, enda frábær staður til að vera með börn á. Við erum einmitt með eina dansk/þýska tveggja ára hnátu sem kemur reglulega með pabba sínum í Háskólasetrið og kalla mætti yngsta „nemandann“ okkar.“

Ingibjörg bætir því við „að sjálfsögðu eru innlendir nemendur jafnvelkomnir og munum við einnig efla innlenda markaðssetningu, það er samt eitthvað svo merkilegt að mörgum í hinum landsfjórðungunum þykir miklu meira mál að fara í nám á Ísafirði en t.d. fólki frá Asíu og Norður-Ameríku!“

DEILA