Hagstofa Íslands tekur saman upplýsingar um ráðstöfunartekjur eftir búsetu frá 2004-2016 úr Lífskjararannsókn Hagstofu Íslands, en nýrri tölur hafa ekki verið birtar.
Miðgildi ráðstöfunarteknanna 2016 er hæst á höfuðborgarsvæðinu eða 362.700 kr. ráðstöfunartekjur á svonefnda neyslueiningu. Í stærri bæjum er miðgildið 320.700 kr og í dreifbýlinu 331.400 kr. Eru ráðstöfunartekjurnar þannig 13% hærri á höfuðborgarsvæðinu en í stærri bæjum annars staðar á landinu og 9,4% hærri en í dreifbýlinu. Í krónutölu eru ráðstöfunartekjurnar 42.000 kr. hærri á höfuðborgarsvæðinu en í stærri bæjum.
Ráðstöfunartekjur á neyslueiningu eru skilgreindar sem ráðstöfunartekjur eftir að tillit hefur verið tekið til heimilis-stærðar og þeirrar hagkvæmni í rekstri heimilisins sem fæst við það að fleiri en einn búa undir sama þaki. Einnig er gert ráð fyrir því að útgjöld vegna barna séu lægri en útgjöld vegna fullorðinna.
