Fiskeldi, skattar, staðreyndir og uppbygging

Það er óumdeilt að fiskeldi á Íslandi hefur vaxið kröftuglega síðasta áratuginn eða svo. Á Vestfjörðum hefur þessi vöxtur átt þátt í því að byggðaþróun hefur algjörlega snúist við. Samfélög sem áður voru á lista yfir brothættar byggðir eru nú blómleg og leggja mikið í sameiginlega sjóði. Fiskeldi er líka farið að skipta miklu máli fyrir þjóðarbúið og ef fram heldur sem horfir verður fiskeldi einn af burðaratvinnuvegum Íslands innan fárra ára. Það skiptir máli fyrir hagsæld og velferð í landinu.

Fiskeldi er ekki óumdeilt og gegn því er rekin öflug hagsmunabarátta. Sanngjarnt aðhald er þó af hinu góða. Það fær aðila til að gera betur, vanda sig enn meira og sækja fram. Íslenskt sjóeldi hefur þannig þróast mikið síðastliðinn áratug, að sumu leyti vegna öflugs aðhalds.

Í umræðunni um fiskeldi er mikilvægt að byggt sé á staðreyndum. Því miður á það ekki alltaf við. Ritstjóri Fréttablaðsins, Sigmundur Ernir Rúnarsson, notar reglulega ritstjórnarpistla Fréttablaðsins til að fjalla um skattaumhverfi íslensks sjóeldis. Nú síðast í Fréttablaðinu 7. janúar sl. undir fyrirsögninni Íslenska gjöfin. Í pistlinum heldur ritstjórinn því fram, gegn betri vitund, að norsk eldisfyrirtæki greiði 60% af tekjum sínum til norska ríkisins á sama tíma og á Íslandi sé ekki einu sinni umræða um hvort fara eigi þessa leið. Hvoru tveggja er alrangt.

Í fyrsta lagi greiða norsk eldisfyrirtæki ekki 60% af tekjum sínum í skatta. Í dag greiða þau í raun nánast enga skatta umfram önnur fyrirtæki í Noregi. Hins vegar hefur norska ríkisstjórnin kynnt áform um að leggja auðlindaskatt á sjó­kvía­eldi í Noregi. Áform þessi lúta að því að leggja 40% skatt á hagnað af þessari starfsemi, en ekki 40% skatt á tekjur, líkt og ritstjórinn staðhæfir ranglega. Á því er mikill munur. Í því samhengi verður að árétta, að áform norskra stjórnvalda lúta aðeins að eldishluta fiskeldis, en ekki fullvinnslu, flutningum eða pökkun. Rétt er einnig að athuga, að þessi áform hafa verið harðlega gagnrýnd, ekki bara af eldisfyrirtækjum heldur einnig sveitarstjórnum upp alla strandlengju Noregs. Áhrifanna er nefnilega strax farið að gæta. Þúsundir starfa hafa nú þegar tapast vegna þessara áforma og fjárfestingum fyrir tugi, ef ekki hundruð, milljarða króna hefur verið slegið á frest. Boðuð áform eru því til endurskoðunar og ekki liggur fyrir hvernig endanleg útfærsla verður. Ekki er ólíklegt að dregið verði úr kynntum áformum.

Ólíkt því sem ritstjórinn heldur fram, þá eru í öðru lagi sérstakir skattar og gjöld á fiskeldi á Íslandi umfram önnur fyrirtæki og skattheimtan á laxeldi er reyndar hvergi meiri í heiminum en á Íslandi. Árið 2019 voru lög um fiskeldi endurskoðuð. Samhliða þeirri breytingu var innleiddur veltutengdur auðlindaskattur, sem tekur mið af alþjóðlegu markaðsverði á laxi. Gjaldtakan er hlutfallslega hærri þegar afurðaverðið er hærra, eða allt að 3,5% af markaðsverði á hvert kíló, en gjaldhlutfallið verður að sama skapi lægra þegar afurðaverð lækkar. Með þessu endurspeglast sú afstaða löggjafans að með hærra afurðaverði aukist geta greinarinnar til að greiða hærra gjald til ríkisins og nærsamfélagsins. Í þessu felst að íslensku fyrirtækin munu greiða 3,5% af allri veltu sinni, ekki bara af eldinu sjálfu, heldur einnig af slátrun, umbúðum, sölu og flutningi fisksins á markaði. Fyrirtækin greiða þennan skatt öll ár – líka þegar illa árar og ekki bara af reiknuðum hagnaði af hluta framleiðsluferilsins, eins og rætt er um í Noregi. Til viðbótar greiða svo íslensku fyrirtækin aflagjöld og gjald í umhverfissjóð sjókvíaeldis sem samanlagt eru yfir 1% af veltu. Þau gjöld er ekki að finna í Noregi. Samtals eru þetta því um 4,5–5% af veltu sem íslensku fyrirtækin greiða í sértæka fiskeldisskatta og gjöld.

Með einfaldri stærðfræði má sjá að íslenskt fiskeldisfyrirtæki, sem er með 10% hagnað fyrir skatta, greiðir um 45–50% af hagnaði í sérstaka fiskeldisskatta og gjöld. Það kemur til viðbótar við 20% tekjuskatt fyrirtækja hér á landi. Auðsýnt er því að hin meinta íslenska gjöf, sem ritstjórinn gerir að sérstöku umfjöllunarefni, er engin.

Í þriðja lagi má benda á að með umræddum lögum frá 2019 var einnig innleidd krafa um uppboð á öllum nýjum eldisleyfum. Í lögunum er kveðið á um að Hafrannsóknastofnun beri að skilgreina eldissvæði og að þau verði síðan boðin út. Slík framkvæmd mun að líkindum skila ríkissjóði tekjum þegar ný leyfi verða gefin út. Í Noregi eru uppboð á leyfum tiltölulega nýlega tilkomin og um 80% fiskeldisleyfa var úthlutað án uppboðs, líkt og þau leyfi sem hefur verið úthlutað á Íslandi. Þá verður líka að nefna, að eldisleyfi sem gefin hafa verið út á Íslandi eru frábrugðin þeim norsku. Hér á landi eru þau tímabundin, en norsku leyfin eru það ekki. Í Noregi má jafnframt flytja leyfi á milli svæða og samnýta en hér á landi er það ekki heimilt þar sem leyfi eru bundin við ákveðnar staðsetningar og rekstraraðila. Á þessu er í raun mjög mikill munur. Sveigjanleiki Norðmanna leiðir til þess að fyrir hvert 1.000 tonna leyfi í Noregi er hægt að framleiða um 1.300 tonn árlega. Hér á Íslandi er nýtingin aðeins um 650 tonn fyrir hvert 1.000 tonna leyfi, eða helmingur þess sem hægt er að framleiða úr hverju tonni leyfis í Noregi. Allur samanburður á leyfum í Noregi og Íslandi verður að skoðast í þessu samhengi.

Að öllu fyrrgreindu virtu er ljóst, að íslensku sjóeldisfyrirtækin greiða nú þegar umtalsverða fjármuni í auðlindagjöld og þau hafa ekki lagst gegn slíkri gjaldtöku, þrátt fyrir að vera í miklum uppbyggingarfasa, með tilheyrandi fjárfestingarþörf. Í Noregi á fiskeldi sér áratugasögu og fyrst núna eru uppi áform um að innleiða auðlindaskatt. Ef tryggja á samkeppnishæfni fiskeldis hér á landi, er mikilvægt að þekkja vel skattheimtu í öðrum ríkjum. Þeir fjölmiðlar sem miðla upplýsingum til almennings geta ekki verið undanþegnir slíkri þekkingaröflun.

Það er ríkur vilji þeirra sem standa að sjóeldi að vera þátttakendur í blómlegu samfélagi í vexti. Skattar til samfélagsins eru ein leið til þess og þar skorast sjóeldisfyrirtækin ekki undan. Til þess að standa undir skattheimtu þurfa fyrirtækin að vera fjárhagslega hraust, þannig að tryggja megi frekari fjárfestingar og verðmætasköpun. Það er þetta jafnvægi sem leiðir til mestrar ávöxtunar samfélaganna.

Daníel Jakobsson,

framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish

DEILA