Ferðaþjónusta og sunnanverðir Vestfirðir

Ferðaþjónusta er orðin að stærsta atvinnuvegi okkar Íslendinga. Ljóst er að greinin á mikið inni og hún muni vaxa mikið næstu ár. Sérfræðingar spá því að ferðamönnum muni fjölga gríðarlega og telja líkur á að meira en þrjár milljónir erlendra ferðamanna sæki landið heim árið 2025. Það er eftir aðeins tvö ár!

Tiltölulega fáir erlendir ferðamenn af heildarfjöldanum leggja leið sína til Vestfjarða. En þeim er að fjölga. Við þurfum bæði að laða þá til okkar vestur og vera tilbúin þegar þeir koma.

Byggjum upp og fjölgum störfum

Innviðir hafa verið að byggjast upp á Vestfjörðum þótt enn sé langt í að fjórðungurinn verði í sömu sporum og aðrir landshlutar sem ferðalangar sækja frekar nú um stundir. Gistipláss eru alltof fá og ekki næg afþreying í boði fyrir ferðalanga.

Ljóst er að við erum farin að hugsa lengra en fram að morgundegi. Nú eru áform uppi um uppbyggingu á hótelum bæði á norður- og suðursvæðinu. Þessi uppbygging er lífsnauðsynleg fyrir ferðaþjónustuna svo greinin nái að vaxa á Vestfjörðum og skila okkur meiri tekjum og fjölbreyttari atvinnumöguleikum á svæðinu.

Fleiri hótel og fjölbreyttari afþreying

Það er gríðarlegt hagsmunamál að byggja upp á Vestfjörðum. Það opnar dyrnar fyrir ferðalöngum. Fjölgunin hefur svo í för með sér fjölþætta hliðarþjónustu sem tengist ferðageiranum. Sú þróun skilar sér til íbúa Vestfjarða í betri lífsgæðum.

Markaðsstofa Vestfjarða hefur í nokkur ár unnið að gerð og markaðssetningu nýrrar ferðamannaleiðar. Það er Vestfjarðarleiðin. Hún er 950 km langur hringvegur sem liggur í gegnum öll þorp á Vestfjörðum.

Miklar væntingar eru til þess að leiðin höfði til ferðamanna og verði stuðningur við enn frekari uppbyggingu ferðaþjónustu í fjórðungnum. Þess vegna er mikilvægt að á sama tíma og Vestfjarðarleiðin er markaðssett verði áfram unnið að því að bæta vegakerfið á allri leiðinni svo hnökrar verði ekki á henni vegna lélegra samganga.

Tvær leiðir – inn og út

Tvær akstursleiðir eru inn og út af suðurfjörðum Vestfjarða. Önnur leiðin liggur í gegnum Patreksfjörð og yfir Kleifaheiði en hin í gegnum Bíldudal, yfir Trostansfjarðarheiði og þar inná nýjan veg um Dynjandisheiði.

Fyrri leiðin um Kleifarheiði er með bundnu slitlagi en hin, leiðin um Trostansfjarðarheiði, er holótt og seinfær. Vegurinn um heiðina fær lágmarksþjónustu frá Vegagerðinni í viðhaldi og mokstri að vetrarlagi.

Stór hluti umferðar frá Bíldudal fer þó þessa leið allan ársins hring þótt vegurinn bjóði vart upp á það.

Tugi þúsunda ferðamanna koma bæði á Dynjanda og Látrabjarg. Ekki nema lítill hluti þeirra skilar sér niður á þorpin þrjú. Ástæðan er meðal annars slæmir vegir inná svæðið sem veldur því að ferðamenn sleppa frekar þessum hluta á leið sinni um Vestfirði.

Þetta verður að bæta.  

Vestfjarðaleiðin og betri vegir

Til þess að Vestfjarða leiðin virki eins og til er ætlast þá verða ökumenn að geta ekið alla leiðina á bundnu slitlagi. Það er einfaldlega lágmark að færa vegina í átt að nútímahorfi svo hægt verði að aka niður af Dynjandisheiði, um Trostansfjarðarheiði og suðurfirðina um Bíldudal, Tálknafjörð og Patreksfjörð og til baka yfir Kleifaheiði eða öfugt – á bundnu slitlagi.  Ef það verður ekki gert og vegurinn verði látinn drabbast niður í aur og bleytu þá er ég hræddur um að fáir ferðamenn fari veginn og þorpin á suðurfjörðunum verði sleppt þegar Vestfjarðaleiðin verður ekin.

Það verður að koma veginum í lag svo leiðin verði greið.

Byrjum á okkur sjálfum

Ferðalöngum finnst fátt leiðinlegra en að  þurfa að aka sömu leið til baka.

Þess vegna er hringvegur lykilatriði ef markmiðið er að laða ferðafólk inná ákveðin svæði. Góður og órofinn hringvegur á Vestfjarðaleiðinni um suðurfirðina er lykilatriði ef við ætlum að fá ferðamenn til að heimsækja þorpin á suðurfjörðunum.

Eins og á öllum góðum heimilum þá þarf að taka til því hvorki viljum við að gestunum líði illa við akstur á slæmum vegum og við viljum að þeir komi aftur, í það minnsta  beri vel söguna af gestgjafanum.

Við verðum því að byrja hjá okkur sjálfum.

Betri vegur niður í Arnarfjörð

Um þessar mundir er krafmikil vinna í gangi í uppbyggingu á Dynjandisheiði. Lítið hefur hins vegar verið rætt um úrbætur á leiðinni af heiðinni niður í Arnarfjörð og mikilvægi hennar fyrir uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu.

Margir óttast að ef ekki verði farið í vinnu við leiðina samhliða vegabótum um Dynjandisheiði þá muni það hægja á uppbyggingu á suðurfjörðunum.

Ég skora því á allt sveitarstjórnarfólk á Vestfjörðum, Vegagerðina og þingmenn að sameinast um að nýr og endurbættur vegur niður í Arnarfjörð verði gerður samhliða uppbyggingarinnar á Dynjandisheiði.

Það verður framkvæmd sem mun skila sér margfalt til baka.

Valdimar Gunnarsson framkv.stj. Skrímslasetursins á Bíldudal

DEILA