Drífa Líftóra með sýningu í Gallerí Úthverfu

Laugardaginn 14. janúar kl. 16 verður opnun sýning á verkum Drífu Líftóru Thoroddsen í Úthverfu á Ísafirði.

Sýningin ber heitið ,,Bestiarium Negativum‘‘ og stendur til sunnudagsins 5. febrúar. Listakonan verður viðstödd opnun sýningarinnar og boðið verður uppá léttar veitingar

.Frá því að land var hér numið fyrir rúmum þúsund árum höfum við í senn óttast og dáðst að náttúrunni okkar. Veðurofsi og draugalegar jarðmyndanir hafa sett svip sinn á það fólk sem hér hefur búið. Þrátt fyrir það höfum við hvorki þurft að óttast flóru né fánu. Þó hefur negatífa náttúrunnar leyft okkur að sjá alls kyns verur sem voru ef til vill ekki til staðar og hafa hinar ýmsu sögur gengið manna á milli um hvurslags ófreskjur hafa sést á láði jafnt sem í legi. Þetta er okkar arfur.

Sýningin Bestiarium Negativum veltir upp spurningunni hvort sé sterkara við skrímslasýn, það sem sést eða það sem ekki sést og skoðar mikilvægi negatífunnar í þessu samhengi. Einnig eru mörkin skoðuð hvar mynstur hættir að vera mynstur. Bestiarium Negativum sýnir í myndum hvað gerist þegar ógnarlegum ókindum er hrúgað saman í litrík mynstur og geigvænleg grös taka á sig skuggalegar myndir.

Drífa Líftóra er í grunninn fata- og textílhönnuður en hún útskrifaðist með BA próf í fatahönnun frá Listaháskóla Íslands 2014 og MA próf í sama fagi frá Paris College of Art 2017. Vorið 2020 útskrifaðist hún með diplómu í textíl frá Myndlistaskólanum í Reykjavík. Eftir útskrift hefur hún haldið tvær sýningar á handþrykktum fatalínum, á HönnunarMars. Hún hefur alltaf haft unun af því að teikna og mála og búa til mynstur úr hinum ýmsu mótífum. Drífa er mikið náttúrubarn og þjóðsagnanörd, en hún er mjög myrkfælin og verður auðveldlega hrædd og hefur notað listina til að vinna bug á þeim ótta.

DEILA