Byggðakvóti: 1.856 tonn til Vestfjarða

Tálknafjarðarhöfn um 1990.

Matvælaráðuneytið hefu gert opinbera úthlutun byggðakvóta á yfirstandandi fiskveiðiári 2022/23. Alls verður úthlutað 4.900 þorskígildistonnum til 51 byggðarlags í 29 sveitarfélögum.

Sé litið á úthlutun eftir landsvæðum þá kemur mest í hlut Vestfjarða, en þangað er ráðstafað 1.856 þorskígildistonnum. Næst kemur Norðurland eystra með 1.086 tonn. Til Austurlands fara 863 tonn og 460 tonn til Norðurlands vestra. Suðurland, Suðurnes og Vesturland eru hvert um sig með minna en 300 tonna úthlutun.

Um úthlutun kvótans á einstök skip og báta gilda almennar reglur en sveitarfélög geta að vissu marki sett sérreglur. Þá þau frest til 13. janúar til þess að senda ráðuneytinu óskir sínar þar um. Tillögur sveitarfélaga verða síðan til kynningar á vef ráðuneytisins til 23. janúar og í framhaldinu verða sérreglur fyrir hlutaðeigandi byggðalög teknar til efnislegrar meðferðar. Þegar reglurnar liggja fyrir verður auglýst eftir umsóknum um byggðakvótann frá útgerðarfyrirtækjum.

14 byggðarlög fá kvóta

Á Vestfjörðum eru það 14 byggðarlög í 8 sveitarfélögum sem fá úthlutun, það er öll sveitarfélög fjórðungsins nema Reykhólahreppur. Í Vesturbyggð fá 3 byggðarlög úthlutun. Brjánslækur og Patreksfjörður fá 15 tonn hvort og Bíldudalur 55 tonn. Samtals er úthlutunin 85 tonn til Vesturbyggðar, sem er það sama og á síðasta fiskveiðári. Sú breyting verður á milli ára að byggðakvóti Bíldudals minnkar um 15 tonn en Patreksfjörður fær 15 tonn, en hafði ekkert áður.

Í Ísafjarðarbæ fá 5 byggðakjarnar úthlutun samtals 1.110 þorskígildistonn og eykst kvótinn um 14 tonn frá síðasta fiskveiðiári. Til Ísafjarðar renna 195 tonn og eykst byggðakvótinn þar um 55 tonn. Á Suðureyri er byggðakvótinn óbreyttur, en hann minnkar um 15 tonn í Hnífsdal, eins og á Flateyri og minnkar um 6 tonn á Þingeyri. Mestur verður byggðakvótinn á Flateyri 285 tonn, þá 275 tonn á Þingeyri, 195 tonn á Ísafirði, 192 tonn á Suðureyri og 163 tonn í Hnífsdal.

Byggðakvótinn verður 285 tonn á Tálknafirði og minnkar um 15 tonn. Í Súðavík lækkar kvótinn úr 90 tonnum í 75 tonn og í Bolungavík eykst byggðakvótinn úr 15 tonnum í 65 tonn.

Í Strandasýslu verður byggðakvótinn 236 tonn í þremur byggðarlögum og eykst um 5 tonn milli ára. Á Norðurfirði verður 30 tonn af byggðakvóta en var áður 15 tonn. Óbreytt úthlutun er á Drangsnesi 76 þorskígildistonn og 10 tonna minnkun á Hólmavík. Þar verður byggðakvótinn 130 tonn en var 140 tonn á síðasta fiskveiðiári.

DEILA