Bolungavík: 200 manns á þorrablóti

Hér er greinilega verið að taka fyrir stöðuna á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða sem teflir fram dönskum læknum.

Hartnær 200 manns sóttu þorrablót Bolvíkinga sem haldið var síðasta laugardag í Félagsheimilinu. Þetta var 76. blótið sem haldið var en það fyrsta var 1944. Blótið féll niður síðustu tvö ár vegna kórónaveirufaraldursins og á fyrstu árum blótsins var það svonefnd Akureyrarveiki sem varð til þess að blót féll niður en að öðru leyti hefur það verið haldið á hverju ári.

Guðrún Dagbjört Guðmundsdóttir var formaður þorrablótsnefndar og má segja að nefndin hafi sett met að því leyti að hafa setið í þrjú ár en kosin er ný nefnd í lok hvers blóts. Guðrún sagði í samtali við Bæjarins besta að ekki hefði verið hávær umræða um að breyta reglum blótsins, en það eru konur sem halda blótið og bjóða bónda sínum. Það kæmi í hlut næstu nefndar að taka umræðuna um hvort opna eigi blótið fyrir einhleypu fólki. Hún sagðist ekki verða vör við mikla kröfu um þá breytingu og það væri athyglisvert að unga fólkið sem hefur flutt vestur síðustu ár virtist vilja halda í hefðirnar og ekki síður varðandi klæðaburð, en mikið er lagt upp úr þjóðbúningum karla og kvenna.

Þá sagði Guðrún að Félagsheimilið færi nánast fullsetið og það gæti orðið vandi að finna pláss fyrir stærri hóp sem vænta mætti að yrði ef reglum yrði breytt.

Þorrablótsnefndin annast allan undirbúning og sér um skemmtiatriði og tekin eru fyrir ýmis málefni úr bæjarlífinu á líðnu ári og gert gaman að þeim. Flutt eru minni karla og kvenna og til kvenna talaði Kristinn Gauti Einarsson að þessu sinni.

Þorrablótsnefndin sem sat í þrjú ár.
Þétt er setið í Félagsheimili Bolungavíkur.

Myndir: Hafþór Gunnarsson.

DEILA