Bolungavík: 1.502 tonna afli í desember

Alls bárust 1.502 tonn af bolfiski á land í Bolungavík í síðasta mánuði.

Togarinn Sirrý ÍS var með þriðjung heildaraflans eða 508 tonn í 6 sjóferðum. Þrír dragnótabátar lönduðu einnig um þriðjungi heildaraflans. Þar voru Ásdís ÍS sem var með 92 tonn, Þorlákur ÍS kom með 120 tonn og Bárður SH landaði 279 tonnum.

Þá voru fjórir bátar á línu og komu þeir með nærri því sama afla að landi og dragnótabátarnir þrír eða um 490 tonn. Fríða Dagmar ÍS kom með 204 tonn og Jónína Brynja ÍS 198 tonn, báðir eftir 19 róðra. Indriði Kristins BA var með 87 tonn í 5 róðrum. Fjórði línubáturinn kom að norðan Eskey ÓF kom með tæp 10 tonn úr einum róðri.

Loks var einn bátur Hjörtur Stapi ÍS á handfærum og landaði 3,5 tonnum eftri 3 róðra.

DEILA