Biskup Íslands hugar að starfslokum

Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands.

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands greindi frá því í nýárspredikun sinni í gær að hún myndi ljúka starfi sínu sem biskup eftir 18 mánuði. Framundan eru því biskupskosningar. „Ég vil að þau sem undirbúa þá kosningu hafi nægan tíma til undirbúningsins og þau sem hyggjast gefa kost á sér hafi nægan tíma til að undirbúa sig og kynna sín
sjónarmið.“

Sagðist sr. Agnes hafa ákveðið að þjóðkirkjudagar verði aftur á mörkum sumar og hausts árið 2024. „Þar mun þjóðkirkjan opna víðfemt, fjölbreytt og öflugt starf sitt upp á gátt í eina viku með fjölbreyttum viðburðum. Karnival kirkjunnar mætti kalla dagana líka. Kirkjudagar munu síðan enda með vígslu á nýjum biskupi Íslands, í bæn og lofgjörð, gleði og söng.“

Áður en hún lætur af störfum mun hún ljúka því verkefni að vísitera alla söfnuði landsins og fara í allar kirkjur landsins.

„Ég hef hugsað mér að enda vísitasíurnar og um leið biskupsþjónustuna með því að syngja með þeim kór í Hólskirkju í Bolungarvík á sjómannadaginn á næsta ári þegar 12 ár verða frá því ég kvaddi þann góða söfnuð.“

DEILA