Arnarlax: ákvörðun Skipulagsstofnunar kom á óvart

Húsnæði Náttúrufræðistofnunar Íslands í hrauninu í Urriðaholti í Garðabæ.

Björn Hembre, forstjóri Arnarlax segir að ákvörðun Skipulagsstofnunar um umhverfismat á breytingum á eldissvæðum í Arnarfirði hafi komið öllum verulega á óvart. Sérstaklega vegna þess að einungis kemur fram í einni umsögn af þeim 11 sem bárust Skipulagsstofnun að þessar breytingar ættu að vera háðar mati á umhverfisáhrifum.

Áfrýja ekki

Heimilt er að kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál. Björn segir að Arnarlax hyggist ekki áfrýja niðurstöðunni og segir að undirbúningsvinna sé hafin við umhverfismat á breytingum á þessum eldissvæðum. „Nýtt umhverfismat mun einungis koma til með að styrkja leyfin sem þar verða gefin út í náinni framtíð.“ segir Björn Hembre.

Náttúrufræðistofnun vildi nýtt umhverfismat

Það kom fram í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands til Skipulagsstofnunar að stofnunin teldi eðlilegt að framkvæmdin færi í mat á umhverfisáhrifum. Það var meðal annars rökstutt með því að stækkun eldissvæða í heild geti leitt til þess að líkur aukist á að lúsasmit berist út fyrir eldissvæðið, bæði í önnur eldissvæði og í villta laxa. Í andsvörum Arnarlax við umsögn Náttúrufræðistofnunar segir að Matvælastofnun fari með stjórnsýslu dýraheilbrigðis samkvæmt lögum um stofnunina og skuli m.a. með starfsemi sinni stuðla að heilbrigði og velferð dýra. Matvælastofnun veiti rekstrarleyfi til fiskeldis í sjó og hafi eftirlit með starfseminni og hafi því forræði á eftirliti með laxalús og aðgerða vegna hennar. Það sé ekki á forræði Náttúrufræðistofnunar. Matvælastofnun hafi veitt umsögn í því máli sem hér sé fjallað um.

DEILA