Arctic Fish: Norwegian Gannet kemur vestur í slátrun eldislax

Norska vinnsluskipið Norwegian Gannet, norska súlan, er væntanleg vestur til þess að annast slátrun á eldislaxi í Dýrafirði. Daníel Jakobsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish segir að sláturhúsið á Bíldudal sé rekið á fullum afköstum og geti ekki annað slátrun upp úr kvíum fyrirtækisins í Dýrafirði og því hafði verið brugðið á það ráð að fá Norwegian Gannet til þess að brúa bilið. Slátrað verði 2000 – 4000 tonnum og gæti þurft að leigja skipið í allt að þrjár vikur en það verður eins skamman tíma og hægt er að komast af enda kostnaðurinn mikill við það. Skipið mun slátra við kvíarnar í Dýrafirði og sigla síðan til Ísafjarðar og landa þar í kör. Fiskurinn verður síðan fluttur suður eða austur á land til frágangs til útflutnings , en eldislax er almennt fluttur út slægður í til þess gerðum körum. Sláturhúsið nýja í Bolungavík er langt komið í byggingu en er ekki tekið til starfa ennþá.

Ísafjarðarbær mun fá aflagjöld af fiskinum og gætu þau numið um 30 m.kr.

Á Ísafirði er verið að undirbúa hafnasvæði fyrir löndun á eldislaxi.

Myndir: aðsendar.

DEILA