Vilja banna sjókvíaeldi

Mynd af lögbýlunum 2.250 sem treysta á tekjur af laxveiðum. Þar má sjá jarðir á Hornströndum.

Landssamband Veiðifélaga, Icelandic Wildlife Fund, Landvernd og fleiri samtök skora á matvælaráðherra að stöðva laxeldi í opnum sjókvíum áður en það verður um seinan. Kallað er eftir trúverðugri áætlun sem miðar að því að banna alfarið laxeldi í sjókvíum hér við land. Í fréttatilkynningu segir að slysaslepping úr kví Arnarlax muni hafa alvarleg erfðafræðileg áhrif á laxastofna.

Segir í fréttatilkynningunni að með sjókvíaeldinu sé byggðum og náttúrunni fórnað. „Á Íslandi eru rúmlega 2.250 lögbýli sem treysta á tekjur frá laxveiðiám og skapar laxveiðin margfalt fleiri störf en sjókvíaeldi mun nokkurn tíma gera. Efnahagslegt virði lax- og silungsveiða nemur 13,5 milljörðum króna árlega. Slysasleppingar sem þessi rýra verðmæti.“

Fréttatilkynningin var að stofni til birt sem heilsíðuauglýsing í helgarblöðum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins.

Undir fréttatilkynninguna skrifa eftirtaldir aðilar:

NASF á Íslandi, Landssamband Veiðifélaga, Icelandic Wildlife Fund, Laxinn Lifi, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Ungir Umhverfissinnar, Lax-á, Veiðiflugur, Veiðivön, Höklar, Six Rivers Project, Stóra-Laxá, Fuss, Laxá á Ásum, Starir, Miðfjarðará, Eleven Experience, Norðurá, Stangaveiðifélag Reykjavíkur (SVFR), Hreggnasi, Vatnsdalsá, Veiðifélagið, Fish Partner og Flugubúllan.

DEILA