Vesturbyggð: allt að 48% hækkun fasteignaskatts

Fjölbýlishúsið að Bölum 4 Patreksfirði.

Fasteignaskattur á fjölbýli á Patreksfirði hækkar um 48,3% milli ára samkvæmt því fram kemur í fjárhagsáætlun Vesturbyggðar fyrir næsta ár. Fasteignaskattur á sérbýli á Bíldudal hækkar litlu minna eða um 43,1%. Sérbýli á Patreksfirði hækkar um 14,1% og fjölbýli á Bíldudal um 13,7%.

Í greinargerð bæjarstjórnar segir að sú hækkun sem varð á fasteignamati milli áranna 2021 og 2022 á sérbýli á Patreksfirði komi núna fram í sérbýli á Bíldudal og fjölbýli á Patreksfirði.

Tekjur af fasteignaskatti næsta árs eru áætlaðar 113,1 m.kr. en voru 93 m.kr. í fjárhagsáætlun yfirstandandi árs eftir endurskoðun hennar. Hækkunin er 20,1 m.kr. eða 21,5%.

Áfram eru veittir afslættir af fasteignaskatti til eldri borgara og öryrkja samkvæmt ákveðnu tekjuviðmiði sem hækkar um 7% á milli ára. Lóðaleiga verður óbreytt frá fyrra ári, lóðaleiga fyrir íbúðarhúsnæði er 1% og 3,75% á annað húsnæði.

Fasteignaskattur á almennt húsnæði er 0,55%, á opinbert húsnæði 1,32% og 1,65% á aðrar eignir.

DEILA