Vestfjarðastofa fimm ára

Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu.

Þann 1. desember síðastliðinn voru liðin fimm ár frá stofndegi Vestfjarðastofu sem sameinaði skrifstofu Fjórðungssambands Vestfirðinga og Atvinnuþróunarfélag Vestfirðinga í eina stofnun. Á þeim tíma voru starfsmenn Fjórðungssambands Vestfirðinga fimm og starfsmenn Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða þrír.  Nokkuð langur aðdagandi hafði verið að sameiningunni og breytingunum ætlað að efla atvinnu og byggðaþróun Vestfjarða með einni öflugri stofnun sem hefði eftirfarandi hlutverk:

Vestfjarðastofa styður einstaklinga, fyrirtæki, félagasamtök og sveitarfélög á Vestfjörðum við að ná árangri á sviði nýsköpunar og atvinnuþróunar. Vestfjarðastofa er í forsvari gagnvart stjórnvöldum, sinnir markaðssetningu og svæðasamstarfi á Vestfjörðum.

Á þeim fimm árum sem liðin eru frá stofndegi Vestfjarðastofu hefur mikið vatn runnið til sjávar og þó verkefnin séu að mörgu leiti keimlík þá hefur hvert ár haft sínar megináherslur og einkenni.

Árið 2018 sem var fyrsta starfsárið fór að verulegu leiti í að móta starfsemina og koma í skorður. Í annál framkvæmdastjóra vegna ársins 2018 segir:

Árið 2018 var baráttuár á Vestfjörðum eins og svo mörg önnur ár. Baráttan nú snýst um þann sjálfsagða rétt Vestfirðinga til sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda svæðisins. 

Á því ári var enn ekki ljóst hvernig færi með vegagerð um Gufudalssveit, miklar deilur voru um Hvalá og leyfismál í sjókvíaeldi voru í uppnámi. Á Fjórðungsþingi haustið 2018 voru skrifaðar harðorðar ályktanir vegna úrskurðar Umhverfis- og auðlindanefndar um fiskeldisleyfi samhliða því að haldin var vinnustofa um sviðsmyndir til framtíðar.

Árið 2019 héldu baráttumál ársins 2018 áfram að vera ofarlega á baugi bæði Gufudalssveit og málefni fiskeldis. Ný lög um fiskeldi voru sett vorið 2019 og þrátt fyrir að nokkur árangur næðist með þeim þá hefur komið í ljós að varnaðarorð okkar á Vestfjarðastofu, Fjórðungssambands og sveitarfélaganna varðandi atriði í þeim sem varða til dæmis skiptingu gjalda af fiskeldi voru réttmæt en ekki var á þau hlustað. Árið 2019 gáfum við út Krossgötur – sviðsmyndir atvinnu- og mannlífs á Vestfjörðum árið 2035 og ný Sóknaráætlun Vestfjarða 2020-2024 leit dagsins ljós. Þessi tvö plögg hafa í raun slegið tóninn til framtíðar fyrir vinnu okkar á Vestfjarðastofu.

Það herrans ár 2020 breytti heiminum en starfssemi Vestfjarðastofu var þrátt fyrir allt mjög öflug á því ári. Við unnum heima, skiptumst á að mæta á stafsstöðvar, tókum upp daglega stutta fjarfundi sem við höfum haldið áfram eftir Covid og tryggja að þó við séum með starfsemi á fjórum starfsstöðvum eigum við dagleg samskipti við samstarfsfólk okkar.

Stórir áfangar náðust á árinu 2020. Dýrafjarðargöngin voru opnuð og niðurstaða fékkst í langvarandi málaferli og óvissu tengda veglagningu um Gufudalssveit og þar er veglagning nú í fullum gangi. Samhliða opnun Dýrafjarðarganga var formleg opnun Vestfjarðaleiðarinnar, nýrrar ferðamannaleiðar um Vestfirði og Dali sem skapar ferðamönnum nýjan valkost í ferðalögum um Ísland.

Hagsmunagæslan árið 2020 beindist að innviðum og grunngerð líkt og fyrri ár. Raforkumál voru ofarlega á baugi og birt var raforkuspá sem unnin var fyrir Fjórðungssambandið og Vestfjarðastofu. Slík gögn eru mikilvæg til að hægt sé með öflugum hætti að sinna hagsmunagæslu svæðisins.

Nýsköpun var ofarlega á baugi á árinu 2020 einfaldlega vegna þess að fjármunir fengust frá ríkisvaldinu til ýmissra verkefna sem annars hefðu ekki náð fram að ganga. Í annál ársins segir meðal annars:

Það kann að virðast nokkur mótsögn í því að á því herrans ári 2020 sé töluvert afl í nýsköpun á Vestfjörðum og margir sprotar að líta dagsins ljós. Í þessari yfirferð verður sjónum að mestu beint að þeim verkefnum sem Vestfjarðastofa hefur komið að með einum eða öðrum hætti eða hafa fengið stuðning úr einhverjum af þeim sjóðum sem stofnunin hefur umsjón með á árinu 2020 sem nema tæplega 200 milljónum króna og fara til fjölbreyttra verkefna svo sem áhersluverkefna, átaksverkefna, verkefna Brothættra byggða og til úthlutunar úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða.

Árið 2021 upplifðum við að Vestfirðir væru í sókn. Í annál ársins eru talin upp fjölmörg dæmi sem styðja þá upplifun svo sem viðurkenningu Lonely Planet sem setti Vestfirði efst á lista ársins 2022 yfir svæði til að heimsækja. Miklar framkvæmdir voru víða á Vestfjörðum bæði tengd samgöngum og atvinnuuppbyggingu ásamt því að bygging útsýnispallsins á Bolafjalli voru í fullum gangi. Enn er þó baráttan fyrir bættri samkeppnisstöðu viðvarandi og verður sjálfsagt enn um hríð.

Það sést í annál ársins að staða sveitarfélaga er áhyggjuefni og þar kemur meðal annars fram eftirfarandi:

Það skiptir miklu máli að sveitarfélögum á svæðinu sé gert kleift að byggja upp sína innviði til að takast á við eflingu atvinnulífs, einkum tengt uppbyggingu í fiskeldi hér á Vestfjörðum. Einfaldasta leiðin til þess er að lögum um fiskeldissjóð verði breytt og hann allur gerður að tekjustofni sveitarfélaga þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað í stað þess að vera úthlutunarsjóður og aðeins hluti tekna hans komi til úthlutunar. Þannig má á fremur einfaldan hátt styrkja umtalsvert stöðu sveitarfélaga á svæðinu til að þau geti sinnt þjónustu við íbúa og atvinnulíf með öflugri hætti en nú er. https://www.vestfirdir.is/is/vestfjardastofa/frettir/vestfirdir-vid-arslok-2021

Árið 2022 hefur eins og árið 2021 einkennst af uppbyggingu víða. Á árinu höfum við fundið áþreifanlega fyrir því að skortur á íbúðarhúsnæði er farinn að standa uppbyggingu atvinnulífs fyrir þrifum. Víða eru þó farin af stað verkefni tengd uppbyggingu íbúða og eru sveitarfélögin í óða önn að vinna að aðal- og deiliskipulagi til að uppbygging geti orðið. Nú er byggt eða áform um byggingar í flestum byggðakjörnum á Vestfjörðum.

Í ferðaþjónustu fundum við vel fyrir áhrifum af bæði áhuga vegna viðurkenningar Lonely Planet og ekki síður áhuga á Vestfjarðaleiðinni og möguleikum hennar. Formleg opnun útsýnispalls á Bolafjalli vakti einnig mikla athygli. Mikill áhugi er á uppbyggingu í ferðaþjónustu á Vestfjörðum sem við sannarlega vonum að raungerist á allra næstu árum í uppbyggingu nýrra hótela, gistiheimila og afþreyingu.

Áfram eru Vestfirðir í sókn og stefnan verður sett á að ná aftur 10.000 íbúum fyrir árið 2035.

Starfsemi eins og sú sem Vestfjarðastofa sinnir byggir öll á vel mönnuðum stjórnum og öflugu starfsfólki sem leggur sig allt fram. Ég vil því að loknum fimm árum á Vestfjarðastofu þakka stjórn og samstarfsfólki þessi ár fyrir þeirra öfluga starf í þágu Vestfjarða og frábært samstarf.

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir,

framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu.

Pistillinn birtist fyrst í fréttabréfi Vestfjarðastofu.

DEILA