Vestfirðir: Enn ekki búið að skipa lögreglustjóra – lögfræðingar undrast

Karl Ingi Vilbergsson er til vinstri á myndinni og Birgir Jónasson til hægri. Myndin er tekin 14.8. 2022 þegar Karl lét af störfum og Birgir tók við.

Dómamálaráðherra hefur ekki enn skipað í stöðu lögreglustjóra á Vestfjörðum. Búið er að auglýsa eftir umsóknum og sóttu sex um. Í byrjun nóvember var lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Halla Bergþóra Björnsdóttir sett sem lögreglustjórinn á Vestfjörðum frá og með 1. nóvember til og með 30. nóv. 

Bæjarins besta fékk þau svör þá í Dómamálaráðuneytinu að lengri tíma hefði tekið að setja ráðningarferlið í gang en gert var ráð fyrir og því stæði það enn yfir. „Nú er verið að taka viðtöl við alla umsækjendur og hæfnisnefnd á eftir að skila niðurstöðum. Vonumst er eftir því að þessu ljúki á næstu vikum“, sagði í svari ráðuneytisins.

Félag lögfræðinga á Vestfjörðum tók málið fyrir á fundi sínum og samþykkti eftirfarandi ályktun:

„Fundur í félagi Lögfræðinga á Vestfjörðum, haldinn á Ísafirði, 8. desember 2022, undrast að enn skuli ekki hafa verið skipað í embætti lögreglustjóra á Vestfjörðum, nú um fjórum mánuðum eftir að sá sem síðast gegndi embættinu lét af störfum, auk þess sem ekki hefur verið löglærður fulltrúi við embættið um nokkurra mánaða skeið.

Er skorað á dómsmálaráðherra að skipa í embætti lögreglustjóra á Vestfjörðum sem allra fyrst.“

DEILA