Vestfirðir: 19% íbúa með erlent ríkisfang

Ísafjörður. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Alls voru 64.735 erlendir ríkisborgarar skráðir með búsetu hér á landi þann 1. desember sl. og fjölgaði þeim um 9.758 frá 1. desember 2021. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Þjóðskrá Íslands. Af íbúum landsins voru 16,7% með erlent ríkisfang og 83,3% eru íslenskir ríkisborgarar.

Upplýsingar Þjóðskár eru ekki sundurliðaðar eftir sveitarfélögum og því ekki hægt að sjá tölurnar fyrir Vestfirði sérstaklega en Hagstofa Íslands gefur upplýsingar um stöðuna í upphafi árs 1. janúar 2022. Samkvæmt þeim voru 1.372 íbúar af 7.205 á Vestfjörðum með erlent ríkisfang eða 19% sem er heldur hærra en landsmeðaltalið.

Flestir erlendir ríkisborgarar í upphafi árs voru í Ísafjarðarbæ eða 707 af 3.840 íbúum. Næstflestir voru í Vesturbyggð, en þar voru 296 erlendir íbúar og hlutfall þeirra 26% af íbúunum. Í Bolungavík voru 203 með erlent ríkisfang og 69 í Súðavík. Í Súðavík var hlutfallið hæst á Vestfjörðum eða 32%.

Á landsvísu voru Pólverjar langfjölmennasti hópur af erlendi þjóðerni um síðustu mánaðamót. Þeir voru 23.315 talsins. Næst koma Litháar sem voru 5.202, þá Rúmenar 3.629 og Lettar í fjórða sæti, en þeir eru 2.668. Úkraínumenn eru fimmti fjölmennasti þjóðahópurinn 2.300 alls. Þeim fjölgaði um 2.061 á síðustu 12 mánuðum.

DEILA