Vegagerð: bundið slitlag á 29 km af umferðarlitlum vegum

Núpur í Dýrafirði.

Vegagerðin hefur látið leggja bundið slitlag á 18,3 km af vegum á Vestfjörðum með litla umferð frá 2011 þegar fyrst kom fjárveiting til þessa verkefnis inn á samgönguáætlun. Áformað er að leggja slitlag á 10,8 km af vegum í þessum flokki á næstu 4 árum.

Þetta kemur fram í svari Innviðaráðherra við fyrirspurn frá Líneik Önnu Sævarsdóttur (B).

Um er að ræða vegi með litla umferð en viðunandi burðarþol þótt veghönnun sé að einhverju leyti ábótavant. Skipting fjárveitingar til verkefnisins á milli svæða tekur mið af lengd vega án bundins slitlags á hverju svæði og umferðarmagni. Lögð er áhersla á umferðarmestu vegina. Önnur atriði sem tekið er tillit til eru ástand veganna, vinnusókn og skólaakstur. Þá er tekið tillit til þess hversu erfitt er að halda uppi þjónustu á þeim eins og þeir eru. Auðveldara er að halda uppi þjónustu eftir að bundið slitlag hefur verið lagt á vegi. Svæðisstjórar leita álits frá sveitarfélögum og sambandi sveitarfélaga hver á sínu svæði um forgangsröðun og val verkefna.

Þeir vegir á Vestfjörðum sem hafa fengið bundið slitlag eru Örlygshafnarvegur frá Skápadal að Hvalskeri 5,8 km, Ingjaldssandsvegur frá Vestfjarðavegi að Núpi 7,5 km, Seljalandssdalsvegur frá Engi að Skíðaskála 2,1 km og Strandavegur í Trékyllisvík 2,1 km.

Á næstu árum 2023-2026 er áformað að leggja bundið slitlag á Örlygshafnarveg frá Hvalskeri að Sauðlauksdal 3,8km og Steinadalsvegur frá Vestfjarðavegi að Ólafsdal 7 km, samtals 10,8 km.

DEILA