Vatnavík, Sólarhlíð og Síldarfjörður

Sól á Grænuhlíð.

Út er komin bókin Keltar, áhrif á íslenska tungu og menningu eftir Þorvald Friðriksson. Í formála segir höfundur að bókin fjalli meðal annars um orð og örnefni á Íslandi sem komin eru úr gelísku, tungumáli sem á landnámsöld hafi verið talað af keltneskum þjóðunum á Skotlandi, í Suðureyjum og á Írlandi. Nefnir höfundur að auk tungumálsins megi finna ýmis áhrif frá Keltum, svo sem áramótahefðir, Grýlu og stjórnskipulag sem megi útskýra með tengingu við Keltana.

Þorleifur varpar fram sínum skýringum á ýmiss örnefni. Grænahlíð við norðanvert Ísafjarðardjúp telur hann að dragi nafn af gelíska orðinu grian sem þýðir sól og að Grænahlíð þýði því sólrík hlíð og bendir á því til stuðnings að ekki sé stingandi strá á Grænuhlíð en þar sem einmitt sólríkt séð frá Bolungavík og Hnífsdal. Þá merki nafn Grænlands að það sé sólríkt en ekki grænt.

Bolungavík hefur helst verið talin merkja vík þar sem bolungar eða trjábolir hafa rekið á land. Það finnst Þorleifi ekki trúverðugt og segir að lítill reki sé á Sandinum og spyr hvers vegna víkin ætti að heita eftir einhverju sem er ekki þar. Þorleifur segir að í gelísku sé bual, bolga yfir vatn eða rennandi vatn um flóðgátt. Finnst honum líklegra með tilliti til staðhátta með vísan í Syðradalsvatn að víkin dragi nafn sitt af stöðuvatninu og nefnir að í Bolungavík á Ströndum sé einnig stöðuvatn og svipaðar aðstæður. Samkvæmt þessari kenningu þýðir þá Bolungavík einfaldlega Vatnavík. Með því er þó ekki skorið úr um hið eilífa deilumál Bolvíkinga hvort skrifa eigi r eða ekki í nafninu Bolungavík.

Svo er það Skötufjörður í Ísafjarðardjúpi. Ekki fer sögum af skötugengd í firðinum en Þorvaldur nefnir til gelísku orðin sgadan, sgadán, scatan sem þýði síld. Það er ekki ósennilegt að síld hafi gengið í fjörðinn og að hann dragi nafn sitt af því.

Skutulsfjörður er skýrður með gelísku orðunum sgaoth, skheit sem þýði að skilja að, kljúfa. Skutulsfjörður verður þá Klofningsfjörður.

Tröð er staðarheiti víða á Vestfjörðum og merkir treud, tréad á gelísku hjörð eða flokkur og gæti því orðatiltækið „að leggja land í tröð“ þýtt að taka land undir beit.

Trostansfjörður er í Arnarfirði. Trosdan, trostán þýðir á gelísku langur og mjór stafur, pílagrímsstafur.

Súðavík virðist eiga sér samsvörun í gelísku samkvæmt kenningum Þorvaldar. Saoi, saoidh mun merkja góður, gjaldmildur, heiðvirður maður, hermaður, menntamaður.

Svo er það að lokum, og eru þá mörg vestfirsk örnefni ótalin, Steig í Veiðileysufirði. Stuaic, stuaichd merkir lítil hæð, hóll.

DEILA