Uppskrift vikunnar – Vetrarsúpa

Þegar það er svona kalt þá er fátt betra en góð súpa. Þó ég vilji nú helst hafa kjöt og fisk í öllu þá er þessi í miklu uppáhaldi.

Eins og með flestar súpur þá er hún líka yfirleitt hreinlega betri upphituð svo um að gera að elda nógu stóran skammt.

Innihald:

1 msk matarolía
1 púrrulaukur, skorin smátt
2-3 hvítlauksrif
1 – 1 1/2 tsk grænt karrýmauk
1/4 tsk cumin
1 tsk turmarik
1/2 tsk kóríander krydd
2 lárviðarlauf
1 stór kartafla
1 stór sæt kartafla
200 gr. rauðar linsubaunir
1 líter vatn (meira ef hún er of þykk)
3-4 grænmetisteningar
1 dós kókosmjólk
salt og pipar
cayennepipar eftir smekk
3 msk sítrónusafi
Ristaðar kókosflögur
Kóríander , saxað
Lime í sneiðum

Aðferð:

  1. Sjóðið linsurnar samkvæmt leiðbeiningum og setjið til hliðar
  2. Laukurinn settur í pott ásamt olíu og steikt saman við lágan hita
  3. Skrælið kartöflurnar og skerið í bita, bætið þeim saman við laukinn ásamt rest af hráefnum og látið malla þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar
  4. Takið lárviðarlaufin úr súpunni
  5. Þegar kartöflurnar eru orðnar mjúkar er töfrasproti eða kartöflustappari notaður og allt maukað vel niður
  6. Smakkið til og bætið við kryddi ef þið viljið

Gott er að hafa auka vatn með grænmetistening tilbúið ef þið viljið hafa súpuna þynnri, eða setja meiri kókosmjólk. Berið fram með ristuðum kókosflögum, kóríander og lime sneiðum.

Verði ykkur að góðu!

Halla Lúthersdóttir.

DEILA