Uppskrift vikunnar – Hátíðarkjúklingur

Flest erum við þannig að við viljum hafa hefðbundinn jólamat. Ég hef nú samt verið að prófa mig áfram í smá öðruvísi jólamat, fyrst vegna þess ég þurfti þess vegna sérstaks mataræðis en núna bara vegna þess að ég hef gaman af því. Kjúklingurinn er mjög góður og vegur aðeins uppá móti reykta og feita kjötinu.

Innihald:

1 reyktur hátíðarfugl u.þ.b. 2 kg.

2 msk. olía

1 msk. smjör

15 skrældir smálaukar eða tveir venjulegir í bátum

15 sveppir

1 msk. tómatpuré

1/2 flaska rauðvín

2-3 timjangreinar eða 1 tsk. þurrkað

3-4 lárviðarlauf

1/2 tsk. nýmulinn pipar

1 msk. kjúklingakraftur

2 dl vatn

Sósujafnari

50 g kalt smjör í teningum

Aðferð:

Setjið fuglinn í eldfast mót. Kraumið lauk og sveppi í olíu og smjöri í potti í 2 mínútur. Bætið þá tómatpuré, rauðvíni, lárviðarlaufum, timjan og pipar í pottinn og sjóðið í 1 mínútu. Hellið þá úr pottinum í eldfasta mótið og færið í 170°C heitan ofn. Bakið í 40 mínútur, snúið þá fuglinum við og látið hann liggja á bringunni í 40 mínútur í viðbót eða þar til kjarnhiti sýnir 71°C.
Sigtið allan safa úr eldfasta fatinu í pott og bætið vatni saman við ásamt kjúklingakrafti og þykkið með sósujafnara. Takið þá pottinn af hellunni og bætið smjöri, í teningum, saman við. Hrærið þangað til smjörið hefur bráðnað. Eftir það má sósan ekki sjóða.

Mér finnst best að vera með kartöflumús og ferskt salat sem meðlæti en þetta klassíska jólameðlæti virkar líka mjög vel með fuglinum.

Verði ykkur að góðu!

Halla Lúthersdóttir.

DEILA