Teitur Björn: ábyrg uppbygging fiskeldis

Teitur Björn Einarsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, sem þessa daga er starfandi á Alþingi, gerði að umtalsefni auglýsingu í dagblöðum um síðustu helgi þar sem krafist er þess að Matvælaráðherra banni laxeldi í sjó.

Minnti hann á að atvinnugreinin starfar eftir ákvæðum laga sem Alþingi hefur sett og áréttaði að Alþingi, en ekki ráðherra, setti greininni lagaumgjörð sem hún starfar eftir og það væri Alþingi en ekki ráðherra sem getur breytt því.

Um starfsumhverfi fiskeldis sagði Teitur Björn: „Hún er vandfundin sú atvinnugrein á Íslandi sem starfar við meira eftirlit, takmarkanir, kvaðir og gjaldtöku en fiskeldisgreinin. Markmið laganna er að stuðla að uppbyggingu fiskeldis af ábyrgð þar sem sjálfbær þróun og vernd lífríkis er höfð að leiðarljósi á grundvelli vísinda og rannsókna.“

Dýrafjörður fær fyrstu einkunn

Þá vék hann að fullyrðingum um skaðsemi fiskeldis og sagði þær rangar.

„Þessi hagsmunaöfl halda því fram að umhverfi og þeirra hagsmunum stafi veruleg ógn af fiskeldi. Þetta er einfaldlega rangt, herra forseti, því að allar rannsóknir, úttektir, mælingar og vöktun segja aðra sögu. Tökum dæmi. Fulltrúi einna samtakanna hefur opinberlega í fjölmiðlum fullyrt að hafsbotninn í Dýrafirði undir eldiskvíum væri, með leyfi forseta, „ein stór bakteríumotta þar sem ekkert annað þrífst“. En hvað segja rannsóknir og athuganir óháðra eftirlitsaðila? Jú, fjörðurinn fær fyrstu einkunn, ástand fjarðarins er gott. Hverju ætlar fólk að trúa hér, upphrópunum og áróðri eða óháðu eftirliti og úttektum sem eru birtar opinberlega?

Herra forseti. Það er mjög miður að þessi hagsmunaöfl virðast engu skeyta um afkomu og velferð fjölda fólks í byggðum landsins og tefla því til að mynda fram að hagsmunir eigenda eyðibýla á Hornströndum eigi frekar að ráða för, svæði sem fór einmitt í eyði af því að efnahagslegur grundvöllur þess brast. Það skal ekki henda aftur á Vestfjörðum.“

DEILA