Teigskógur: vandað til verka við vegagerð

Í nýjasta tölublaði framkvæmdafrétta Vegagerðarinnar https://www.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/fr722-7-2022/$file/VEG_Framkvaemdafrettir_DESEMBER_2022_vef.pdf er gerð grein fyrir vegagerðinni um Teigskóg. Fram kemur að lítið sem ekkert efni er aðflutt í fyllingar í veginn heldur er efnið allt saman sótt í vegstæðið sjálft.

Sigurþór Guðmundsson verkefnastjóri hjá Vegagerðinni segir að með þessum aðferðum „er hægt að skila vegsvæðinu fallega til baka, og þá er nánast eins og vegurinn hafi fallið af himnum ofan um leið og framkvæmdum lýkur.“

Framkvæmdin í Gufudalssveit snýst um endurbyggingu og lagningu nýs Vestfjarðavegar frá Bjarkalundi og að
Skálanesi við Kollafjörð. Núverandi vegur frá Bjarkalundi að Skálanesi er í dag 41,6 km langur, þar af eru 34 km með malarslitlagi. Á honum eru fjórar einbreiðar brýr, krappar beygjur og brattar brekkur. Vegurinn liggur um bratta hálsa,
Hjallaháls og Ódrjúgsháls. En nýi vegurinn verður rúmlega 20 kílómetra leið framhjá báðum hálsunum og hefur verið skipt niður í fimm áfanga. Einum er lokið, þrír eru í framkvæmd og enn á eftir að bjóða út þann síðasta.

Áföngunum fimm er svo líst í framkvæmdafréttunum: „Fyrst má telja; Gufudalsá – Skálanes, endurbyggingu og breikkun vegar á 6,6 km kafla. Lokið var við það verk árið 2021. Næst Kinnarstaðir – Þórisstaðir (þverun Þorskafjarðar) sem felst í nýbyggingu Vestfjarðavegar á um 2,7 km kafla yfir Þorskafjörð en meðal verkþátta er bygging 260 m langrar steyptrar brúar. Þetta verk er í fullum gangi og á að ljúka
sumarið 2024. Í þriðja lagi er það áfanginn; Þórisstaðir – Hallsteinsnes um Teigsskóg sem nánar verður fjallað um hér síðar. Í fjórða lagi; Djúpadalsvegur sem er nýbygging 5,7 km langs vegar inn Djúpafjörð sem nú er unnið að og á að ljúka í lok þessa árs. „Sá vegur verður í raun ekki hluti Vestfjarðavegar þegar allri framkvæmdinni verður lokið heldur mun þjóna sem tenging við núverandi Vestfjarðaveg þar til búið verður að bjóða út og klára síðasta áfanga verksins milli Hallsteinsness og Melaness, um 3,6 km leið,“ lýsir Sigurþór en í því verki felst þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar með þremur brúm. Búið er að hanna tvær þeirra og unnið að hönnun þeirrar þriðju. Ekki er komin tímasetning á hvenær sá áfangi verður boðinn út.“

Svarðlagið varðveitt

Mikil áhersla er lögð á að halda í staðargróður í framkvæmdinni. „Við viljum halda gróðri sem bestum og ná að endurheimta hann raunverulega,“ segir Sigurþór en það er gert með því að fletta um 20 cm ofan af gróðurtorfum og svarðlagi í vegstæðinu. Svarðlagið er síðan endurnýtt með því að leggja það aftur út í vegkanta samhliða því sem vegurinn er byggður upp.

Gróðurinn á þessum tíu kílómetra kafla er æði fjölbreyttur. Þar má finna lyngvaxið land, kjarr, ræktuð tún, graslendi, votlendi, mela, mýrar, móa, skóga og sjávarfitjar. Sigurþór segir nokkuð flókið að reyna að skapa aðstæður í vegsvæði líkt og voru fyrir. Það þurfi að vanda til verka til að ekki komist á legg plöntur sem ekki eru fyrir á svæðinu.
„Það eru mikil verðmæti í svarðlaginu hér á Íslandi og mikilvægt að nýta sem mest af því“ segir Sigurþór.

Fram kemur að þessi aðferð hafi verið notuð erlendis með góðum árangri svo sem í Noregi og í Bandaríkjunum og hafi verið gert hérlendis á Þingvallavegi og Dettifossvegi.

Myndir: Vegagerðin/Haukur Sigurðsson.

DEILA