Tálknafjörður: 63 m.kr. halli á fjárhagsáætlun 2023

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps hefur afgreitt fjárhagsáætlun fyrir næsta ári. Í bókun um málið segir að í rekstraráætlun A og B hluta séu heildartekjur áætlaðar 436,8 mkr. og framlegð rekstrar fyrir afskriftir og fjármagnsliði er jákvæð um 2,8 mkr. Að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða er rekstrarniðurstaða neikvæð, þannig að rekstrarhalli samstæðu A og B hluta er áætlaður 63,1 mkr. Gert er ráð fyrir því að fjárþörf verði mætt með því að ganga
á handbært fé og með langtíma lántöku.

Þá segir að það sé upplýst ákvörðun sveitarstjórnar að að halda áfram með nauðsynlegar framkvæmdir í Tálknafjarðarhreppi og þannig auka skuldsetningu frekar en að fara inn í sameiningarviðræður á næstu árum með mikla
framkvæmdaþörf.

Í forsendum fjárhagsáætlunar er álagningarhlutfall útsvars óbreytt frá fyrri árum, eða 14,52% og álagningahlutfall fasteignagjalda er að mestu óbreytt frá fyrra ári. Ýmsir rekstrarliðir sem ráðast af ytri þáttum eru hækkaðir til samræmis við spár um verðlagsbreytingar. Í þjónustugjaldskrám er gert ráð fyrir hækkun sem nemur 5,2% á flestum liðum.

DEILA