Sundabakki: dýpkunarskipið Sóley væntanlegt í janúar

Frá framkvæmdum við Sundabakka. Mynd: Ísafjarðarhöfn.

Vegagerðin hefur kynnt áform sín um dýpkun Sundahafnar fyrir hafnarstjórn Ísafjarðar. Samkvæmt minnisblaði Vegagerðarinnar mun dýpkunarskipið Sóley koma vestur um miðjan janúar og hefja dýpkun. Verður skipið útbúið með framröri svo það geti unnið á grynningunum við Sundabakka. Auk þess mun Álfsnesið koma vestur þegar það er eki bundið við dýpkun í Landeyjarhöfn.

Björgun er verktaki Vegagerðarinnar og keypti það nýtt skip erlendis frá í apríl 2022 en illa gekk að fá skipið skráð og það var ekki fyrr en í ágúst sem það gat byrjað að vinna. Segir í minnisblaðinu að þá hafi sumarið verið farið í súginn og öll plön hafi riðlast.

Ef eingöngu Sóley kemur til með að vinna að dýpkuninni mun verkið taka 50 daga.

Verkkaupi mun krefjast sekta sem nemur tekjutapi sem verður ef skemmtiferðaskip næsta árs þurfa að vera á akkeri en geta ekki lagst að viðlegukanti. Fyrstu skipin koma 27. maí 2023.

DEILA