Studio Dan ehf- Ísafjarðarbær tapar 10,6 m.kr.

Studio Dan.

Á hluthafafundi Studio Dan ehf. 21. nóvember 2022, var samþykkt að slíta félaginu og fara fram á afskráningu þess í hlutafélagaskrá. Ísafjarðarbær tekur á sig 10,6 m.kr. uppsafnað tap félagsins með því að greiða 13 milljónir króna fyrir líkamsræktartæki, -búnað og önnur tæki tengd rekstri líkamsræktarstöðvarinnar sem bókfærð voru á 2,3 m.kr. Ísafjarðarbær var eini eigandi hlutafjár í félaginu.

Málið var kynnt á fundi bæjarráðs á mánudaginn og leggur það til við bæjarstjórn að samþykkja kaupsamning við Studio Dan ehf. um kaup eignasjóðs á tækjum og búnaði í eigu félagsins, auk þess að samþykkja undirritun yfirlýsingar um slit eignalauss félags til RSK.

Í lok árs 2017 keypti bærinn allt hlutafé í líkamsræktarstöðinni. Skuldin við sveitarfélagið var fyrst og fremst komin til af hallarekstri sem var mætt með því að greiða ekki leigu fyrir afnot af húsnæðinu.

Líkamsræktarstarfsemi á Ísafirði er styrkt um 400 þúsund kr. á mánuði með samningi við Isofit til þriggja ára, sem gerður var í september 2020.

DEILA