Strandabyggð: 197,5 m.kr. framkvæmdir á næsta ári

Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur afgreitt fjárhagsáætlun næsta árs og þriggja ára áætlun þar á eftir fyrir árin 2024-2026. Vegna slæmrar fjárhagsstöðu sveitarfélagsins verður útsvarið hærra á næsta ári en ella eða 14,95%. Samkvæmt áætluninni verður jákvæð afkoma á næsta ári af rekstri um 21,7 m.kr. Skatttekjur eru áætlaðar 639 m.kr. Nýjar lántökur verða 120 m.kr.

Til framkvæmda verður varið 197,5 m.kr. á næsta ári. Stærsta framkvæmdin verður við grunnskólann, en upp er komin mygla í húsnæðinu. Enn er veruleg óvissa um kostnað og umfang viðgerðanna en settar eru 50 m.kr. til framkvæmdanna á næsta ári og 200 m.kr. alls á næstu fjórum árum.

Til gatnagerðar verður varið 43,4 m.kr. og samtals 138 m.kr. á næstu fjórum árum. Lagt er upp með framkvæmdir í eftirtöldum götum og svæðum: Plan við hafnarskúr og vegur út að trébryggju, auk svæðisins frá Hafnarbraut að bryggju, Austurtún, Miðtún, Vitabraut, Skólabraut, Höfðagata, Skjaldbökuslóð, Kópnesbraut og plan við slökkviliðsstöð. Að auki er gert ráð fyrir viðgerð á gagnstéttum.

Þá eru á næsta ári 20 m.kr. sem mótframlag sveitarfélagsins vegna íbúðabygginga og framlags HMS til þeirra. Til íþróttamiðstöðvar verður varið 16 m.kr., til leikskóla 15 m.kr. og 13 m.kr. í tjaldsvæði.

Fjárhagsáætlunin var samþykkt með atkvæðum meirihlutans en minnihlutinn sat hjá og sagði í bókun að í fjárhagsáætluninni kæmi skýrt fram skilningsleysi meirihlutans á gildi félags- og menningarmála og heiðarlegra samskipta í samfélaginu til að gera Strandabyggð að vænlegum búsetukosti.

DEILA