Sjókvíaeldi: Landvernd dregur í land

Stjórn Landverndar dregur talsvert í land varðandi afstöðu til laxeldis í sjókvíum í bréfi til ráðherra sem sent var 8. desember sl. Stjórnin vill banna frekari vöxt fiskeldis þar til þekking um langtímaáhrif þess eldis sem þegar er komið af stað á Íslandi er fyrir hendi. Stjórn Landverndar telur varhugavert að halda áfram á sömu braut vaxtar í fiskeldi í opnum sjókvíum, nú sé tímabært að staldra við, meta stöðuna og áhrifin á náttúru og umhverfi og bæta lög og reglur og styrkja eftirlit.

Kveður við nokkuð annan tón í þessu bréfi sé miðað við erindi Landverndar og 24 annarra aðila sem kölluðu eftir „trúverðugri áætlun sem banni alfarið laxeldi í sjókvíum hér við landi.“ Þau skoruðu þann 4. desember eða fjórum dögum áður á Svandísi Svavarsdóttur, matvælaráðherra, að „stöðva slíkt laxeldi áður en það verði um seinan.“ Þessi áskorun var send af því tilefni að Matvælastofnun hafði sektað Arnarlax fyrir viðbrögð fyrirtækisins við ætluðu umtalsverðu stroki fisks úr kví fyrirtækisins í Arnarfirði. Í bréfinu segir að hafi stjórnvöld áhuga á að vernda villta laxastofna og náttúru Íslands verði að stöðva fiskeldi í opnum sjókvíum og „Undirrituð samtök og fyrirtæki skora á matvælaráðherra að stöðva laxeldi í opnum sjókvíum áður en það verður um seinan. Kallað er eftir trúverðugri áætlun sem miðar að því að banna alfarið laxeldi í sjókvíum hér við land.“

Ekki hægt að styðja bæði erindin

Á þessum tveimur erindum er mikill munur. Reyndar svo mikill að ekki er hægt að styðja þau bæði samtímis. Fyrra bréfið kallar eftir því að stöðva eldið í sjókvíum og svo að banna það. Síðara erindið tekur allt annan pól í hæðina. Þar er ekki stefnt að banni við fiskeldi heldur þvert á móti að það verði áfram en stöðva þurfi frekari vöxt um sinn og bæta lög, reglur og eftirlit. Segja má að stjórn Landverndar hafi gefist upp á því að berjast gegn fiskeldinu og vilji, a.m.k. í orði kveðnu, vinna með áframhaldandi uppbyggingu fiskeldisins. Það á þó eftir að skýra betur hvað og hvernig eigi að bæta í lagaumgjörð og eftirliti að mati samtakanna. Engu að síður er um mikilsverða stefnubreytingu að ræða sem vert er að veita athygli.

Með bréfi stjórnar Landverndar segja samtökin skilið við hina 24 aðilana í fyrra erindinu sem krefjast banns við laxeldi. Í þeim hópi kennir ýmissa grasa svo sem six rivers project, Fish partner, Flugubúllan, Stangveiðifélag Reykjavíkur og Starir, sem bæði hafa haft á leigu ár í Ísafjarðardjúpinu og síst en ekki síst IWF, Icelandic wildlife fund sem draga ekki af sér í gagnrýni á núverandi umhverfisráðherra og segja hann „líklega hættulegasti einstaklingurinn, sem hefur komist i þetta embætti, fyrir umhverfi og lífríki Íslands.“

Það er vel skiljanlegt að samtök , sem vilja láta taka mark á sér, segi skilið við félagsskap af þessu tagi. Stóryrðaflaumurinn og ærumeiðandi ummæli gegn nafngreindum persónum, sem því miður eru of algeng, hafa dæmt þá úr leik sem ástunda þennan leik. Þeir sem vilja hafa áhrif á framvindu mála í fiskeldi, rétt eins og í hverju öðru máli, verða að flytja mál sitt af hófstillingu og umfram allt að virða staðreyndir. Stjórn Landverndar hefur áttað sig á því að fyrri málflutningur endar í blindgötu og áhrifaleysi.

-k

DEILA