Sjókvíaeldi: áhrif á lífríki tímabundin og afturkræf

Dýrafjörður. Mynd: Baldur Smári Einarsson.

Í aðsendri grein á bb.is fara tveir vísindamenn, dr. Þorleifur Eiríksson og dr. Þorleifur Ágústsson yfir áhrif sjókvíaeldis á lífríki hafsins, einkum við og undir kvíunum. Þeir hafa mikla reynslu af því að fylgjast með eldinu og meta áhrif þess á lífríkið. Lýsa þeir þeim reglum sem gilda um eldið og eru um eftirlit með því.

Þeir undirstrika að fiskeldi hafi vissulega áhrif á umhverfi sitt, en segja að vel sé tryggt að þau áhrif séu staðbundin og ekki varanleg. Fiskeldi í sjókvíum sé ekki leyft á tilteknu svæði nema að áhrifin á svæðið séu metin tímabundin og afturkræf.

Þarf leyfi, umhverfismat og eftirlit óháðra aðila

Til að stunda fiskeldi þarf starfsleyfi frá Umhverfisstofnun. Til að fá leyfið þarf að framkvæma mat á umhverfisáhrifum. Í umhverfismatsferlinu er mögulegum áhrifum eldisins lýst nákvæmlega, m.a. uppsöfnun lífrænna efna og áhrifum á botndýralíf og það birt í matsskýrslu. Séu áhrifin metin meiri en ásættanlegt er er málið stopp og fer ekki lengra. En ef áhrifin séu metin ásættanleg, er næst metið hvernig hægt sé að takmarka röskunina og koma í veg fyrir varanlegan skaða á lífríkinu. Fáist leyfið er það gert að skilyrði að eftir að slátrun fisks úr eldiskvíum sé eldissvæði hvílt nægilega lengi til að botninn nái að jafna sig. Ennfremur gerir Umhverfisstofnun þá kröfu að lögð sé fram ítarleg vöktunaráætlun, unnin af óháðum aðila og sem uppfyllir viðurkennda gæðastaðla.

Áður en eldi hefst er gerð grunnathugun sem er notuð sem viðmið fyrir síðari vöktun. Grunnástand fyrirhugaðs eldissvæðis er því alltaf vel þekkt. Tekin eru botnsýni og fylgst með niðurbroti lífrænna efna á hafsbotni.

Lífrænn úrgangur ekki það sama og skólp

„Niðurstöður ríflega tveggja áratuga vöktunar af þessu tagi hér við land sýna að lífrænn úrgangur frá fiskeldi er mestur í næsta nágrenni kvíanna og áhrifin minnka hratt þegar fjær dregur“ segir í greininni.

Þeir segja mikilvægt að benda á að lífrænn úrgangur frá fiskeldi er ekki það sama og skólp, sem er mengað frárennslisvatn frá heimilum og fyrirtækjum. „Í skólpi eru meðal annars hættulegar bakteríur og eiturefni, sem ekki eru í lífrænum leifum frá fiskeldi.“

Hvít slikja þýðir aðeins að meiri hvíldartíma þarf

Þorleifur Eiríksson sagði í samtali við Bæjarins besta að athuganir í Álftafirði í Ísafjarðardjúpi hefðu staðfest að eftir 3 ára hvíld væri ekki hægt að sjá að nokkuð fiskeldi hafi verið þar áður. Hann var spurður um „hvíta bakteríuslikju“ sem framkvæmdastjóri Verndarsjóðs Villtra Laxastofna (NASF) staðhæfði að væri undir kvíum undan Gemlufalli í Dýrafirði. Þorleifur vildi ekki svara því þar sem hann hefði ekki gögnin undir höndum, en sagði að almennt væri svona slikja merki um að svæðið þyrfti lengri hvíldartíma en það myndi jafna sig. Um væri að ræða skort á súrefni í botnsetinu en þetta brotnar niður með tímanum. „Slikjan segir bara það að svæðið þarf meiri hvíldartíma“ en sé ekki til marks um eitthvað hættulegt. Þorleifur sagði að Umhverfisstofnun vildi hafa breytilegan staðbundinn hvíldartíma.

Upplýsingarnar sem fást geta leitt til breytinga á hvíldartíma svæðisins eða færslu á kvíum.

Vísindaleg vinnubrögð

Þeir ljúka grein sinni með því að víkja að gagnrýni á opinbera eftirlitskerfið og að þeir sem vinna að eftirlitinu séu ekki óháðir. Þeir vísa gagnrýninni á bug og segja að krafa á vísindamenn sé einmitt að niðurstöður séu birtar í ritrýndum vísindatímaritum eða á formi vísindaskýrsla sem þurfa að þola gagnrýna skoðun.

„Það er því mjög alvarlegt þegar lítið er gert úr vinnu og fagmennsku vísindamanna á þessu sviði í því skyni að gagnrýna fiskeldi í sjó.“ og „Samstarf okkar við fiskeldisfyrirtæki hefur verið farsælt, enda hafa þau aldrei reynt að hafa áhrif á niðurstöður þeirra rannsókna eða vöktunar sem við höfum haft með höndum. Það yrði heldur aldrei liðið.“

DEILA