Sameign í sitt hvoru lagi

Daníel Jakobsson, fyrrverandi bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ er með ansi beitta gagnrýni á þá ákvörðun ríkisins að afsala verðmætu landi í eigu ríkisins til Betri samganga ohf, en á næstu árum mun rísa nýtt hverfi á Keldum og Keldnaholti í Reykjavík. Andvirði landsins rennur til þess að greiða fyrir samgönguinnviði í tengslum við uppbyggingu hverfisins. Þannig er verið að framfylgja samgöngusáttmála sem ríki og sveitarfélög gerðu árið 2019.

Daníel spyr einfaldlega í færslu á facebook:

„Ok við eigum s.s. fiskinn í sjónum, veitumannvirki á landsbyggðinni og firðina á Vestfjörðum saman. En ríkiseign í Keldnaholti fer til að bæta samgöngur í Rvík. Eða er ég að misskilja? Ætti ekki virði þessa lands að fara bara í ríkissjóð til að mæta útgjöldum ríkissjóðs almennt?“

Daníel segist ekki andvígur því að landið sé selt hæstbjóðanda og að andvirðið renni til samgönguáætlunar , en hefði þetta gerst á landsbyggðinni hefði það verið kallað kjördæmapot.

Minna má á að tekjurnar af nýtingu vestfirskra fjarða undir fiskeldi, fiskeldisgjaldið, sem stefnir í milljarða króna árlega innan fárra ára, renna í ríkissjóð. Aðeins þriðjungur þess er látið í Fiskeldisjóð sem síðan styrkir innviðaframkvæmdir í sveitarfélögum þar sem umsvifin af fiskeldinu kalla á þær. En það eru ekki vissar tekjur, heldur þarf að sækja um þær og ekkert fyrirfram í hendi um að sveitarfélögin fái umsóknina samþykkta.

Það má umorða meininguna í spurningu Daníels þannig að fyrir vestan sé eign ríkisins, auðlindin í fjörðunum eða í hafinu þar fyrir utan sameign þjóðarinnar og tekjurnar af nýtingunni renni í ríkissjóð en þegar kemur að verðmætum í eigu rikisins í Reykjavík horfi þetta öðru vísi við, það sé sameign í sitt hvoru lagi og andvirðið fari að öllu leyti til verkefnis innan borgarmarkanna.

-k

DEILA