OV fær 4 milljarða kr. fyrir hlut sinn í Landsneti

Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Landsvirkjun, RARIK og Orkubú Vestfjarða hafa náð samningum um kaup ríkisins á 93,22% eignarhlut fyrirtækjanna í Landsneti hf. Samkvæmt kaupsamningum greiðir ríkið bókfært verð fyrir eignarhlut þeirra sem nemur um 439 milljónum Bandaríkjadala, eða um 63 milljörðum króna.

Tilkynnt var um kaupin í gær.

Landsnet var stofnað með lögum 2004 og tók til starfa 2005. Landsnet starfar samkvæmt sérleyfi og gegnir mikilvægu hlutverki á raforkumarkaði, en hlutverk félagsins er flutningur raforku og stjórnun raforkukerfisins. Eigendur voru í byrjun Landsvirkjun, Rarik og Orkubú Vestfjarða. Árið 2007 bættist Orkuveita Reykjavíkur í eigendahópinn og hefur eignarhald verið óbreytt síðan.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:

„Ég er ánægður með að breytt eignarhald Landsnets sé komið til framkvæmda.  Það hefur verið víðtæk samstaða um að eignarhald Landsnets sé best komið í beinni eigu ríkisins og/eða sveitarfélaga. Með þessum samningi er stigið fyrsta skrefið í að innleiða þessa breytingu hjá þessu mikilvæga fyrirtæki.“

Elías Jónatansson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða:

„Eignarhlutur OV í Landsneti hefur á undanförnum árum skapað tekjur sem hafa verið mikilvægur þáttur í rekstrarafkomu Orkubúsins. Með sölunni skapast hins vegar ný tækifæri fyrir Orkubúið að auka fjárfestingar í orkuinnviðum á Vestfjörðum og tryggja þannig Vestfirðingum betur sambærilega stöðu í raforkumálum og aðrir íbúar landsins búa við.“

Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta fær Orkubú Vestfjarða um 4.030 milljónir kr fyrir hlut sinn og er greiðslan í formi skuldabréfs á ríkið til 5 ára.

DEILA