Ögurnes: fær rafmagn úr landi – sparar meira en 100 þúsund lítra af olíu

Háafell ehf hefur hafið fiskeldi í Vigurál í Ísafjarðardjúpi. Fiskeldisgjaldið gefur miklar tekjur til hins opinbera.

Síðastliðinn föstudag var lagður út landtengingarkapall útí fóðurpramma Háafells, Ögurnes, sem staðsettur er í Vigurál. Í frétt Háafells um atburðinn segir að þetta sé fyrsta landtenging í fóðurpramma á Vestfjörðum og að von er á fleirum á næstu mánuðum. Landtengingin mun sjá prammanum fyrir allri orkuþörf auk þess sem ljósleiðari er í strengnum sem tryggir góð fjarskipti.

„Er þetta góður áfangi og liður í að minnka kolefnisspor laxeldis ennfrekar, minnka flutninga og dælingu af olíu og nota þess í stað innlenda hreina orkugjafa“ segir í fréttinni.

Þorsteinn Másson forstöðumaður Bláma sagði í samtali við Bæjarins besta að prammi eins og Ögurnes brenni 100 – 120 þúsund lítrum af olíu á ári, sem muni alveg sparast með því að fá rafmagn úr landi. Þorsteinn segir að á næstunni verði prammi Arctic Fish í Dýrafirði tengdur við rafmagn úr landi og unnið er að tengingu þess þriðja, sem er í Arnarfirði á vegum Arnarlax. Orkusjóður styrkti landtenginguna í öllum þessum þremur tilvikum.

Samstarfsaðilar Háafells í þessu verkefni eru Orkusjóður, Blámi, Orkubú Vestfjarða, EFLA og Sjótækni.

Myndir: Háafell.

DEILA