Óeining í Í lista

Gunnar Jónsson var í gær kosinn varamaður í velferðarnefnd fyrir Í lista í stað Gauja M. Þorsteinssonar. Gaui sagðist vera búinn að gefast upp á pólitík í Ísafjarðarbæ og sagði að alltaf væri það völdin sem ráða persónum, en ekki öfugt. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um ástæður þess að hann hættir að vinna fyrir Í listann.

Um síðustu mánaðamót lýsti Gaui óánægju sinni opinberlega með vanefndir af hálfu forystu Í listans í málum sem munu hafa snúið að íþróttamannvirkjum sveitarfélagsins. Gylfi Ólafsson, oddviti listans gerði athugasemdir við það og mun samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta viðskiptum þeirra hafa lokið á þann veg að Gauja var skipt út.

DEILA