Landsbankinn veitir 15 milljónir króna í samfélagsstyrki

Samfélagsstyrkjum að upphæð 15 milljónum króna var úthlutað úr Samfélagssjóði Landsbankans þriðjudaginn 20. desember sl. Alls hlutu 32 verkefni styrki að þessu sinni. Í fréttatilkynningu frá landsbankanum segir að verkefnin séu afar fjölbreytt og gagnist fólki á öllum aldri og víða um land.

Sex verkefni hlutu styrk að fjárhæð ein milljón króna, tíu verkefni hlutu 500.000 króna styrk og 16 verkefni fengu 250.000 króna styrk.

Kayaking the north

Meðal þeirra sem fengu 1 milljón kr. styrk var Hrafnhildur Gunnarsdóttir fyrir heimildarmyndina og röð heimilarþátta Kayaking the North sem fjallar um siglingu transkonunnar Veigu Grétarsdóttur meðfram ströndum fjögurra Norðurlanda. Myndin vekur athygli á áhrifum mannsins á lífríkið við sjávarsíðuna og alvarlegar afleiðingar aðgerða mannkynsins á umhverfið segir í lýsingu.

Cool Wool

Annað verkefni sem einnig fékk einnar milljón króna styrk var þróunarverkefnið Cool Wool kælipakkningar. Markmið þess er að þróa vistvænt efni sem unnið er úr örtrefjagrasi og örtrefjasellulósakvoðu sem síðar verður unnið áfram í fullbúnar kælipakkningar til flutnings á ferskum kældum fiski.

Einnig má nefna að Bændasamtök Íslands fengu 500 þúsunda kr. styrk til verkefnisins Andleg heilsa bænda sem snýst um að hlúa að andlegri heilsu fólks í bændastéttinni.

Meðal annarra styrkþega eru Landssamtökin Þroskahjálp, bandalag íslenskra skáta, Barnaheill og Veraldarvinir.

DEILA