Daníel Jakobsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish segir að lítil áhrif verði af því að úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál felldi úr gildi hluta af leyfi félagsins fyrir breytingum á staðsetningu eldiskvía í Patreksfirði og hvíldartíma þeirra. Ógild var stækkun eldissvæðis við Kvígindisdals út að Örlygshöfn þar sem til stóð að sameina það við nýtt eldissvæði sem nefnist Háanes.
Daníel segir að ekki hafi staðið til að setja út eldisfisk á því svæði fyrr en eftir tvö ár. Nú yrði farið í að greina betur úrskurðinn en svo virtist að leyfið fyrir upphaflega Kvígindisdals svæðinu stæði óbreytt. Ástæða nefndarinnar fyrir ógildingunni er að nýja eldissvæðið er að hluta til innan siglingageira Ólafsvita. Yrði farið í að finna lausn á því og var Daníel bjartsýnn á að það tækist tímanlega. Lítil umferð báta er um þetta svæði og skarar kvíasvæðið ekki hefðbundna siglingaleið um fjörðinn.