Kaup Mowi á Arctic Fish samþykkt

Starfsemi Arctic Fish í Tálknafirði.

Í morgun varð ljóst að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur samþykkt fyrir sitt leyti kaup Mowi á meirihluta hlutafjár í Arctic Fish eða nánar tiltekið 51,28%. Seljandi var SalMars og var í kaupsamningi fyrirvari um samþykki samkeppnisyfirvalda í Evrópusambandinu fyrir kaupunum. Mowi greiðir 1,9 milljarða norskra króna fyrir hlutabréfin.

Þetta kemur fram í tilkynningu Mowi til norsku kauphallarinnar.

Arctic Fish hefur framleiðsluleyfi fyrir 27.100 tonnum af eldislaxi á Vestfjörðum og er með 4.800 tonna umsókn að auki. Gert er ráð fyrir að á árinu 2022 verði slátrað 10.600 tonnum af laxi.

Mowi hefur áður komið að eldi á Íslandi. Á níunda áratug síðustu aldar tók fyrirtækið þátt í hafbeitartilraun sem lauk með tapi við lok áratugsins.

DEILA