karfan: tveir Ísfirðingar valdir til æfinga með unglingalandsliði

Körkuknattleikssamband Íslands hefur ráðið þjálfara yngri liða Íslands fyrir komandi verkefni sumarið 2023. Öll landslið Íslands taka þátt í verkefnum drengja og stúlkna líkt og síðasta sumar og þá hefur NM U20 liða verið bætt við í samstarfi Norðurlandanna líkt og hefur verið með U16 og U18 liðin á undanförnum árum.
Verkefni liðanna verða viku keppnisferð til Finnlands hjá U15 liðunum í ágúst, NM í Finnlandi og EM hjá U16 liðunum, NM í Svíþjóð og EM hjá U18 og U20 liðunum.

Alls eru þetta átta landslið sem verða í gangi næsta sumar. U20 ára lið drengja leikur í A-deild evrópukeppninnar næsta sumar en þar leika aðeins 16 bestu þjóðirnar. Þetta er í þriðja sinn sem Ísland á lið í A-deild í Evrópukeppninni. U16 og U18 drengja og stúlkna og U20 kvenna leika í B-deild þar sem rúmlega 20 lið keppa.

Búið er að boða fyrstu hópa allra U15, U16 og U18 landsliðanna til æfinga í lok desember. Þá verður æft ásamt því að mælingar leikmannahópa í samstarfi við HR verða teknar á öllum liðum og þá verða fræðslufyrirlestrar einn daginn að auki fyrir alla hópana.

Tveir liðmenn Vestra hafa verið kallaðir til æfinga. Það eru þeir Haukur Fjölnisson í U15 drengja og Hjálmar Helgi Jakobsson í U16 einnig drengja, báðir Ísfirðingar.


DEILA